spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaStjörnumenn lúskruðu á meisturunum í 40 mínútur!

Stjörnumenn lúskruðu á meisturunum í 40 mínútur!

KR-ingar voru gestir MG-hallarinnar í lokaleik 9. umferð deildarinnar í kvöld. Það mætti líkja KR-ingum við UFC-goðsögn sem er komin af léttasta skeiði. Goðsögnin hefur tapað 3 af 4 síðustu bardögum sínum og sigurinn eini í Keflavík kom eftir klofna dómaraákvörðun. Þó að eldri goðsagnir þurfi kannski að velja sér bardaga hljóta þeir að velja þennan til að viðhalda andlegum yfirburðum sínum. Stjarnan hefur hins vegar massað sig vel upp undanfarin ár, æft ýmis trikk og stefnir án vafa að því að verða næsta goðsögn.

Spádómskúlan: Kúlunni finnst þessi inngangur alveg einstaklega frábær. Hún tekur undir þau orð að hinir goðsagnakenndu raðmeistarar muni velja þennan bardaga og sigra örugglega með uppgjafartaki, 79-88.

Byrjunarlið:  

Stjarnan: Hlynur, Tommi, Ægir, Tomsick, Kyle

KR: Jón, Matti, Jakob, Craion, Kristó 

Gangur leiksins

Liðin skiptust á körfum í upphafi, hraður og skemmtilegur leikur í gangi og fín stemmning í húsinu. Craion var allt í öllu fyrir KR-inga og reyndar svo að það horfði til vandræða. Heimamenn sigu líka framúr eftir því sem á leið, Tommi spilaði frábærlega en liðsfélagar hans læddu líka molum í pokann góða. Um miðjan leikhlutann voru heimamenn komnir 20-10 yfir eftir algerlega geggjað hraðaupphlaup þar sem Ægir snéri af sér mann á sprettinum og fann Tomma að lokum í nettu sniðskoti undir körfunni. Þarna hafði Ingi nýlega tekið leikhlé en það gerði ekkert gagn, eftir leikhlutann var staðan 32-17 og kúlan botnaði ekkert í þessu. Craion var með 10 stig af þessum 17 en 7 leikmenn höfðu skorað hjá heimamönnum.

Stjörnumenn héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og þegar 6:40 voru eftir af honum leiddu heimamenn 42-22! Ingi tók þá aftur leikhlé og að þessu sinni leit það a.m.k. út fyrir að gera gagn. Vörnin hertist töluvert hjá gestunum og Ingi hefur líklega minnt á að það varðar ekki landslög að fá villu við og við. Heimamenn kólnuðu einnig lítið eitt fyrir utan eins og gengur og gerist og meistararnir nöguðu sig rólega nær. Sóknarlega settu fleiri KR-ingar stig á töfluna en það er þó athygliverð staðreynd að enginn gestanna var með meira en 4 stig fyrir utan Craion í hálfleik! Hálfleikstölur 48-38 sem er enginn munur…

KR-ingar áttu fyrstu 4 stig seinni hálfleiks og allir Stjörnumenn, Arnar Guðjóns þar með talinn, óttuðust að nú væri risinn vaknaður. En heimamenn svöruðu heldur betur þessu áhlaupi, smelltu tveimur þristum í næstu sóknum og Ingi tók enn og aftur leikhlé í stöðunni 58-42 með rúmar 6 mínútur á klukkunni. Ekki var breytingu mikla að sjá og Kyle sendi Brilla á rassinn og smellti niður þristi, Ægir bætti svo tveimur við með sniðskoti eftir stolinn bolta og þá var staðan 71-47 og enn tóku gestirnir leikhlé. Kristó virtist ætla að leysast upp í öreindir sínar af bræði yfir stöðu mála í leikhléinu og reyndi að öskra sína menn í gang. Það hjálpaði lítið og Ægir kórónaði frábæran leikhluta sinn með þristi í lok hans og setti stöðuna í 80-58.

Tomsick er maðurinn sem klárar leiki eins og landsmönnum er orðið fullkunnugt og í raun var það þannig í þessum leik. Án þess að svo mikið sem selja upp smellti hann tveimur þristum snemma í lokaleikhlutanum og setti stöðuna í 90-62. Þó 6:30 væri eftir af leiknum voru úrslitin ráðin þarna. Oft saxar verðandi tapliðið svolítið á forskot sigurvegaranna við þessar aðstæður en heimamenn héldu bara áfram að slá goðsögnina ítrekað á alla vegu! Meira að segja ruslamínúturnar tvær féllu Stjörnumönnum í vil. Lokatölur 110-67 í ótrúlegum stórsigri Stjörnunnar!

Menn leiksins

Það er erfitt að taka einhvern einn út í Stjörnuliðinu. Kyle spilaði sennilega sinn besta leik með liðinu, Hlynur tók 19 fráköst og var frábær varnarlega (ekki að það séu einhverjar fréttir), Ægir var alveg geggjaður og var hársbreidd frá þrennunni, Tomsick kláraði leikinn og Tommi spilaði frábærlega á báðum endum og var sjálfum sér líkur.

KR-megin var Craion langbestur og svo mikið að það var til vandræða eins og fram hefur komið. Hann skilaði 27 stigum, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Kjarninn

Heimamenn veru ekki svo afleitir í þessum leik. Arnar veðjaði á það að verjast Craion einn á einn og það herbragð heppnaðist vel. Hlynur, Tommi og Ágúst gerðu vel gegn honum þrátt fyrir 27 stigin – það sem mestu skipti var að hinir þurftu ekki að berjast þrír við það að verjast fjórum KR-ingum. Vissulega eru Stjörnumenn með eitt stykki Hlyn í sínum röðum en það þarf líka að skora og sóknarlega átti liðið einnig skínandi leik og liðið fann ítrekað leiðir til að koma sér í færi til að skora. En eins og Arnar benti ákveðið á í viðtali eftir leikinn er þessi leikur enginn ávísun á sigur í næsta leik – en við áhorfendur, einkum Stjörnumenn, skulum leyfa okkur að dreyma um ákaflega bjarta framtíð!

KR hefur ekki tapað svo stórt í deildarleik áður en liðið hefur einu sinni tapað stærra í úrslitakeppni. Það var árið 1997 þegar liðið tapaði gegn Keflavík með 54 stigum.

Við kúlan erum eiginlega agndofa yfir þessum úrslitum. Aftur kallar undirritaður til Óskars Ófeigs til að finna út hvenær KR tapaði svona stórt síðast. Einnig er það tæplega í minni elstu manna hvenær KR-liðið brotnaði síðast en það var í raun það sem gerðist í þessum leik enda tapa lið ekki svona stórt nema það eigi sér stað. KR-ingar ættu bara að hafa orð Arnars í huga í kvöld og næstu daga, þessi leikur mun sennilega og vonandi engu skipta um framhaldið. Ingi mun þó vafalaust velta fyrir sér hverju væri hægt að breyta til að snúa gengi liðsins en KR hefur nú tapað 4 af síðustu 5 leikjum sínum.

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -