spot_img
HomeFréttirStjörnumenn héldu stigunum í Garðabænum

Stjörnumenn héldu stigunum í Garðabænum

Það mátti búast við hörkuleik Ásgarði í kvöld þar sem Stjarnan tók á móti Snæfellingum en fyrir leikinn voru liðin í 7. og 8. sæti deildarinnar.
 
 
Travis Cohn þriðji byrjaði leikinn vel og setti fimm fyrstu stig gestanna en Shouse og Marvin svöruðu hvor með sinn þristinn. Liðin skiptust á að finna körfurnar í upphafi leiks en heimamenn voru skrefinu á undan með Hairston í fararbroddi og staðan fljótlega orðin 17-10. Heimamenn komust svo 9 stigum yfir 22-13 með flottum rispum frá Degi og Hairston. Snæfellingar héldu sér inn í leiknum með þristum en Siggi Þorvalds og Travis voru grimmir fyrir utan þriggja stiga línuna og héldu leiknum í jafnvægi, 22-18. Tilþrif kvöldsins litu svo dagsins ljós seint í fyrsta leikhluta þegar Shouse gaf hnitmiðaða ,,alley oop” sendingu á Hairston sem var ekki í vandræðum með að troða kvikindinu og kveikti í leiðinni í áhorfendum. Stjörnumenn voru að sýna fína sóknartilburði og hefðu líklegast haldið inn í annan leikhluta með meira forskot hefði títtnefndur Travis ekki verið sjóðandi heitur en hann var með 16 stig eftir fyrsta leikhluta sem endaði 33-31.
 
 
Dagur Kár byrjaði annan leikhluta að krafti með fjórum stigum í röð en Finnur Atli kom sterkur inn fyrir gestina, svaraði Degi og setti 5 í röð, 39-36. Dagur Kár var hvergi nærri hættur og nældi sér í ,,and 1” af dýrari týpunni með fallegu gegnumbroti. Shouse sem hafði verið rólegur í stigaskorun framan af minnti á sig með tveimur flottum körfum og heimamenn héldu áfram að leiða leikinn, 49-46. Í þeirri stöðu virtist svo vera að liðin hefðu fengið nóg að því að skora því það var ekki fyrr en tæpum 3 mínútum seinna sem Hairston braut ísinn með karlmannlegri ,,fylgitroðslu”. Snæfell enduðu leikhlutann þó betur með flottum molum frá Pálma og Finn en staðan í hálfleik var 53-51, heimamönnum í vil þar sem Travis var búinn að setja 20 stig fyrir Snæfellinga.
 
Hairston hélt áfram að vera atkvæðamikill fyrir heimamenn í þriðja leikhluta og setti 5 fyrsti stigin, 58-53. Siggi og Svenni svöruðu um hæl með tveimur risa þristum og héldu leiknum í járnum, 62-61. Þriðji leikhlutinn einkenndist af hörku baráttu þar sem bæði lið spiluðu af mikilli orku. Stjarnan náði þó flottum 7-0 spretti og komu stöðunni 73-65. Eins og fyrr gáfu Snæfellingar ekkert eftir og löguðu stöðuna fyrir fjórða leikhluta, 75-70 og því ljóst að leikurinn var hvergi nærri búinn.
 
Gestirnir byrjuðu síðasta fjórðunginn betur og komu stöðunni í 76-75 með hörkuvörn sem lét Stjörnusóknina hika um tíma. Í þeirri stöðu hófu gestirnir að hlaða múrsteinum úr opnum þriggja stiga skotum en það var þeim til happs að heimamenn virtust ekki vera að finna netið heldur. Liðin fóru þá að leita nær körfunni og gekk betur að koma sigum á töfluna af póstinum þar sem Jón Sverris og Finnur Atli voru atkvæðamiklir. Leikurinn var í járnum og í stöðunni 83-82 ákvað Justin Shouse að mæta með stóru skotin til leiks og negldi niður einum dýrmætum þristi fyrir heimamenn, 86-82. Í stöðunni 88-84 klikkaði Travis svo úr tveimur stórum vítaskotum en gestirnir sáu líklega verulega á eftir þessum auðfengnu stigum. Stuttu seinna setti Shouse annan risaþrist og kom stöðunni í 91-84 þegar skammt var eftir leiks. Gestirnir voru þó ekki hættir en Siggi setti 5 góð stig í röð og kom muninum í 3 stig, 91-88 þegar rúmlegar 1 mínúta var eftir. Stjörnumenn héldu þá í sókn en mistnotuðu hana og gestirnir gátu því jafnað á lokasekúndunum. Svenni og Siggi náðu þó ekki að koma boltanum ofan í tveimur þriggja stiga tilraunum í lok leiksins og Shouse kláraði leikinn af línunni, 93-88 í hörkuleik.
 
Atkvæðamestir heimamanna voru þeir Hairston með 26 stig og 11 fráköst, Dagur með 18 stig og Shouse 17 stig og 11 stoðsendingar.
 
Í liði Snæfells átti Travis Cohn stórleik með 24 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar en Siggi Þorvalds kom þar næstur með 21 stig.
 
 
Umf: ÞÖV
 
  
Fréttir
- Auglýsing -