spot_img
HomeFréttirStjörnumenn fordæma vinnubrögð Keflvíkinga

Stjörnumenn fordæma vinnubrögð Keflvíkinga

 Stjörnumenn hafa gefið frá sér yfirlýsingu í kjölfar dómsins sem sendir Fannar Helgason í tveggja leikja bann.  Í yfirlýsingunni furða þeir sig á dómnum og einnig fordæma þeir vinnubrögð körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og telja þau sem slík minnka trúverðuleika deildarinnar. Yfirlýsingin í heild sinni er hægt að lesa hér…
 
Yfirlýsing KKD Stjörnunar
 
 Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar furðar sig á ákvörðun Aga- og úrskurðarnefndar KKÍ um að setja Fannar Helgason, leikmann Stjörnunnar í 2 leikja bann fyrir atvik er gerðist í leik milli Stjörnunnar og Keflavíkur 5. apríl síðastliðinn.  Sama nefnd komst að þeirri niðurstöðu fyrir stuttu síðan að ekki þætti ástæða til að breyta ákvörðun dómara í leik liðanna frá 2. apríl þar sem sambærilegt atvik kom upp, en hafði mun alvarlegri afleiðingar fyrir einn af leikmönnum Stjörnunnar. Til að gæta samræmis í úrskurðum sínum hefði nefndin því ekki átt að dæma Fannar Helgason í leikbann og rökstuddi körfuknattleiksdeildin þá skoðun sína rækilega í greinargerð til nefndarinnar vegna kæru Keflavíkur.
 
 
Jafnframt fordæmir körfuknattleiksdeild Stjörnunnar vinnubrögð Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur í þessu máli.  Deildin lagði það í hendur körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar að taka á málinu innan sinna herbúða, sem Stjarnan gerði.  Var alvarleiki málsins undirstrikaður við Fannar, hann sviptur fyrirliðastöðu sinni auk þess sem Fannar hafði samband við leikmann Keflavíkur og baðst afsökunar á atvikinu. Þá harmaði Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar þetta atvik opinberlega í yfirlýsingu. Þrátt fyrir að  Stjarnan hafi tekið rækilega á málinu innan sinna herbúða ákveður Körfuknattleiksdeild Keflavíkur samt sem áður að kæra atvikið, sem er deildinni til vansa og eykur ekki trúverðugleika hennar né er samstarfi körfuknattleiksdeilda á Íslandi til framdráttar.  KKD Keflavíkur hefði þá átt að kæra atvikið strax ef það var ætlun forráðamanna deildarinnar, enda er það hinn rétti farvegur fyrir mál af þessu tagi . 
 
Þess má geta að Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur ekki sent neina yfirlýsingu frá sér þar sem deildin harmar það atvik sem gerðist í leik liðanna 2. apríl, né heldur hefur sá leikmaður sem var aðili að málinu hjá Keflavík beðist afsökunar.  Í því tilviki verður leikmaður Stjörnunnar fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna þeirra áverka sem hann hlaut.
 
 
Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar telur að Fannar Helgason hafi nú fengið vel rúmlega þá refsingu sem þykir hæfileg í þessu máli og verður hann því aftur fyrirliði Stjörnunnar um leið og banninu er aflétt.
Fréttir
- Auglýsing -