spot_img
HomeFréttirStjörnukonur nánast komnar í úrslitakeppnina eftir sigur á Val

Stjörnukonur nánast komnar í úrslitakeppnina eftir sigur á Val

 

Stjörnukonur tóku í kvöld á móti Val í Domino’s deild kvenna. Barátta liðanna um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppni deildarinnar var í algleymingi fyrir leikinn, en fyrir leik voru Garðbæingar í fjórða sæti deildarinnar, fjórum stigum á undan Val. Með sigri gátu gestirnir því minnkað muninn milli liðanna í tvö stig þegar þrír leikir væru eftir af deildakeppninni, en Stjörnukonur gátu á móti nánast gulltryggt miðann í úrslitakeppnina. Eftir frábæra byrjun heimakvenna komust Valskonur betur inn í leikinn í öðrum og þriðja leikhluta og höfðu þriggja stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 43-46. Stjörnukonur hafa hins vegar oftar en einu sinni náð að snúa leikjum sér í vil í lokafjórðungum leikja og í kvöld var engin breyting þar á. Garðbæingar náðu að loka vörn sinni vel og Dani Rodriguez tók yfir leikinn í sókninni og svo fór að Stjörnukonur unnu afskaplega mikilvægan sigur, 72-68.

 

Lykillinn

Leikur heimakvenna féll nokkuð niður í öðrum og þriðja leikhluta og náðu Valskonur mest 11 stiga forystu í þriðja leikhluta. Hins vegar virðist Pétur þjálfari Stjörnunnar hafa einstakt lag á að undirbúa sína leikmenn undir fjórða leikhluta leikja, því í enn eitt skiptið virtist sem allt annað Stjörnulið kæmi á völlinn í fjórða leikhluta. Vörnin small mjög vel hjá liðinu og sóknarleikurinn flæddi mun betur en hann hafði gert fram að því, sem skilaði sér í flottum sigri.

 

Hetjan

Það virðist vera orðin gömul tugga að velja Dani Rodriguez sem mann leiksins í leikjum Stjörnunnar en það er gild ástæða fyrir því. Rodriguez er einfaldlega frábær leikmaður og skilaði frábærum tölum í enn eitt skiptið fyrir Garðbæinga með 31 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar. Einnig er vert að minnast á frammistöðu Bríetar Hinriksdóttur sem skoraði 23 stig, þar af 13 í fyrri hálfleik, en Bríet var um tíma með meira en helming stiga Stjörnunnar!

 

Framhaldið

Gestirnir hljóta að naga sig í handabökin að hafa ekki klárað þennan leik úr vænlegri stöðu í þriðja leikhluta, en eins og áður sagði hefði sigur Vals hleypt lifi í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni. Af því varð þó ekki og eru Garðbæingar því nú 6 stigum á undan Val þegar einungis þrír leikir eru eftir af deildakeppninni. Sigur Garðbæinga var því lífsnauðsynlegur þeim Garðbæingum sem fyrirlíta spennu í íþróttum, því nú er ljóst að Stjarnan er með níu tær í úrslitakeppninni í fyrsta skipti í sögu félagsins. 

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Fréttir
- Auglýsing -