Það hefur ekki farið fram hjá neinum lesendum Karfan.is, og landanum í heild sinni, að mikil hátíð hefur verið í dag innan hreyfingarinnar en Keflavík og Stjarnan tryggðu sér nafnbótina Bikarmeistarar og eru bæði lið vel að titlinum komin.
Vestanhafs er einnig mikið partý en Stjörnuhelgin í allri sinni dýrð er haldin þessa helgi í Houston og endar eins og alltaf með Stjörnuleiknum sjálfum milli Vestur og Austurstrandarinnar aðfararnótt mánudags.
Í nótt munu þriggja stiga keppnin, troðslukeppnin, skotkeppni stjarnanna og hæfnisþrautin fara fram og í ár er verður þetta með breyttu sniði en Austrið mun mæta Vestrinu í stað þess að blanda öllu saman eins og gert hefur verið.
Fyrir þá sem ekki þekkja til þá mun dagurinn byrja á skotkeppni stjarnanna (Shooting stars) en þar leiða saman hesta sína núverandi leikmenn úr NBA og WNBA sem og gamlar kempur. Lið New York sigraði þessa þraut í fyrra þar sem Landry Fields, Allan Houston og Cappie Pondexter léku fyrir liðið.
Í ár munu James Harden (Houston Rockets), Russel Westbrook (OKC), Maya Moore (Minnesota Lynx) og Tina Thompson (Seattle Storm) keppa ásamt Sam Cassell og Robert Horry fyrir Vestrið á meðan Chris Bosh (Miami Heat), Brook Lopez (Brooklyn Nets), Swin Cash (Chicago Sky) Tamika Catchings (Indiana Fever) keppa ásamt Muggsy Bogues og Dominique Wilkins fyrir Austrið.
Á eftir skotkeppni stjarnanna er komið að hæfnisþrautinni (Skil Challenge). Í þessari þraut er í raun farið í grunn körfuboltans en liðin þurfa að fara tvisvar í gegn um þrautabraut sem felur í sér að drippla, senda og skjóta og það lið sem klárar þrautina á betri tíma sigrar.
Fyrir Austrið eru þeir Jrue Holiday (Philadelphia), Brandon Knight (Detroit) og Jeff Teague (Atlanta) sem taka þátt á meðan Tony Parker (San Antonio), Damian Lillard (Portland) og Jeremy Lin (Houston) keppa fyrir Vestrið.
Hápunktar þessa dags eru án nokkurs vafa þriggja stiga keppnin og troðslukeppnin og þær keppnir þarf ekki að kynna.
Í þriggja stiga keppninni munu þeir Paul George (Indiana), Kyrie Irving (Cleveland) og Steve Novak (New York) skóta fyrir Austrið en Ryan Anderson (New Orleans), Matt Bonner (San Antonio) og Stephan Curry (Golden State) fyrir Vestrið.
Gerald Green (Indiana), Terrence Ross (Toronto) og James White (New York) munu svo troða fyrir Austrið á meðan Eric Bledsoe (L.A. Clippers), Jeremy Evans (Utah) og Kenneth Faried (Denver) troða fyrir Vestrið.
Jeremy Evans vann þessa keppni á síðasta ári og getur því haldið troðslukóngs titlinum ef að Vestrið vinnur þessa keppni.
Aðfararnótt mánudags mun svo Stjörnuleikurinn fara fram eins og áður segir og hann verður sýndur á Stöð 2 Sport og hefst kl. 1:15.