Stjörnumenn tóku á móti Fjölni í Dominosdeild karla í kvöld. Bæði lið máttu þola ósigur í síðustu umferð þar sem Stjarnan tapaði í Borgarnesi og Fjölnir lá á heimavelli fyrir Sauðkræklingum. Nokkrir leikmenn voru á meiðslalistanum í kvöld en þeir Ólafur Torfason, Jón Sverrisson og Ágúst Angantýsson sáust í borgaralegum klæðnaði á bekkjum liðanna.
Þrátt fyrir kappmikla vörn Fjölnismanna á upphafsmínútum voru Stjörnumenn að finna körfuna og komust fljótlega í 10-2. Sóknarleikur gestanna var heldur stirðbusalegur og þá munaði kannski um Sims sem var einhverra hluta vegna ekki í byrjunarliði þeirra í kvöld. Tómas Þórður Hilmarsson var í byrjunarliði Stjörnunnar í kvöld og minnti vel á sig á báðum endum vallarins með góðum körfum og baráttu fráköstum. Heimamenn keyrðu í bakið á Fjölnismönnum og fengu oftar en ekki einfaldar körfur í kjölfarið en staðan var 20-11 þegar 2 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Fjölnismenn náðu þó að hanga í heimamönnum og staðan eftir fyrsta fjórðung 22-15.
Fjölnismenn komu betur stemmdir til leiks í öðrum leikhluta og skoruðu 4 fyrstu stigin, 22-19. Flæðið í sóknarleik gestanna var allt annað en margir voru að leggja í púkkið og skila stigum. Stjörnumenn héldu þó forskotinu og hirtu mörg sóknarfráköst sem skiluðu einföldum stigum. Staðan um miðbik leikhlutans var 30-27 fyrir heimamenn. Á síðustu fimm mínútum fjórðungsins var talsverður hiti í mönnum í sitthvorri merkingu orðsins. Jón Orri fékk tæknivillu fyrir kjaftbrúk en Daron Lee Sims var búinn að finna sinn gír í sóknarleik gestanna og raðaði niður stigunum og setti meðal annars gullfallegt skot á bakvið eyrað, Stjörnumönnum til mikillar gremju. Fjölnismenn sýndu mikla baráttu og á tímabili leit út eins og þeir væru að spila á sínum eigin heimavelli. Það dugði þó ekki til þar sem Justin nokkur Shouse vaknaði til lífsins og skoraði átta flott stig í röð fyrir Stjörnuna sem endaði leikhlutann sterkt og fór með 9 stiga forskot, 49-40, til búningsklefa.
Þriðji leikhluti byrjaði með troðslu frá Sims sem reyndi að kveikja í sínum mönnum og náðu þeir aðeins að minnka muninn, 51-45. Það dugði þó skammt þar sem Jarrid Frye ákvað að setja mark sitt á leikinn eftir að hafa verið stigalaus fram að þessu. Frye skoraði 9 stig í röð og sýndi hvers konar gæðaleikmaður hann er. Stjörnumenn tóku öll völd inn á vellinum með hann í fararbroddi og á augabragði var munurinn rokinn upp í 15 stig, 60-45, þegar leikhlutinn var tæplega hálfnaður. Gestirnir voru þá aftur orðnir heldur stirðir í sóknaraðgerðum sínum og áttu fá svör í vörninni. Það virtist sem gæði leikmannahóps Stjörnumanna kæmu vel í ljós í þriðja leikhluta og áhlaup þeirra var of stór biti að kyngja fyrir Fjölnismenn. Staðan eftir leikhlutann var 76-54 og því virtist aðeins vera formsatriði fyrir heimamenn að klára leikinn.
Yngri leikmenn liðanna fengu að spreyta sig í fjórða leikhluta en það ber að hrósa Fjölnismönnum fyrir baráttu sína þrátt fyrir að sjá ekki fyrir sér sigur í leiknum úr því sem komið var. Þá má einnig nefna að allir leikmenn gestanna komust á blað í leiknum. Stjörnumenn héldu þó ávallt í kringum 20 stiga forskoti út leikhlutann og endaði leikurinn 93-76 heimamönnum í vil. Með sigrinum komust Stjörnumenn í toppbaráttuna með 8 stig en Fjölnismenn sitja með Skallagrími á botni deildarinnar með 2 stig.
Umfjöllun: ÞÖV



