spot_img
HomeFréttirStjórnin á að skammast sín!

Stjórnin á að skammast sín!

 
Yngvi Gunnlaugsson er allt annað en sáttur við málalok sín að Hlíðarenda en honum hefur verið vikið úr starfi sem þjálfara Valsmanna í Iceland Express deild karla. Yngvi sagði í samtali við Karfan.is að stjórn Körfuknattleiksdeildar Vals ætti að skammast sín.
,,Ég hef verið að vinna við mjög erfiðar aðstæður í sumar. Stjórnin hefur verið óvirk í allt sumar og kom ekki saman fyrr en síðasta þriðjudag, þeirra fyrsta verk var að reka mig,“ sagði Yngvi í samtali við Karfan.is. Hvaða forsendur hafði stjórnin fyrir uppsögninni?
 
,,Stjórnin sagðist vilja leita á önnur mið, þetta voru þeirra orð,“ sagði Yngvi og aðspurður af hverju stjórnin vildi leita á önnur mið sagði Yngvi að hún yrði að svara fyrir það.
 
,,Ég var að vinna í því að styrkja liðið og gera það klárt fyrir næsta tímabil og það með ekkert bakland. Þetta var mjög erfitt og svo er brottrekstur fyrsta verk stjórnarinnar,“ sagði Yngvi og finnst hafa verið farið á bak við sig.
 
,,Daginn sem ég var rekinn hafði ég spurnir af því að öðrum manni hefði verið boðið að þjálfa liðið, ég er látinn fara á þriðjudegi en honum boðið starfið laugardaginn þar á undan,“ sagði Yngvi og staðfesti að Ágústi Björgvinssyni hafi verið boðið að taka við karlaliði Vals. ,,Framkvæmdastjóri félagsin mætir svo á fund aðalstjórnar á mánudag og tilkynnir að ég sé hættur með liðið, mér óafvitandi, ég sagði aldrei upp störfum.“
 
Yngvi segir ákvörðun stjórnar vera án hans vitundar en hann hafi vissulega látið í veðri vaka að aðgerða væri þörf, að liðið þyrfti a.m.k. að bæta við sig tveimur til þremur erlendum leikmönnum en niðurstaðan hafi verið sú að Yngva hafi verið sagt upp störfum.
 
,,Ég fagna því nú reyndar að stjórnin hafi náð því að koma saman eftir að hafa legið í dvala í tvo og hálfan mánuð. Ég er drullufúll með þessa niðurstöðu, það er bara þannig, mér finnst framkvæmdastjóri félagsins hafa staðið sig mjög illa í þessum málum og stjórn Körfuknattleiksdeildar Vals á auðvitað bara að skammast sín.“
 
Fréttir
- Auglýsing -