spot_img
HomeBikarkeppniStjarnan VÍS bikarmeistari í 11. flokki stúlkna

Stjarnan VÍS bikarmeistari í 11. flokki stúlkna

Stjarnan lagði KR nú í hádeginu í úrslitaleik VÍS bikarkeppni 11. flokks stúlkna, 67-76

Fyrir leik

Stjarnan er sem stendur í efsta sæti deildarkeppninnar með þrjá sigra og eitt tap á meðan að KR er í fjórða sætinu með einn sigur og fjögur töp. Þetta eina deildartap Stjörnunnar kom þó á móti KR í byrjun september þegar Vesturbæjarliðið hafði öruggan sigur á þeim í Garðabæ.

Gangur leiks

Stjarnan mætir með miklum krafti inn í leikinn og nær 9 stiga áhlaupi á fyrstu tveimur mínútum leiksins. KR eru þó snöggar að ranka við sér og vinna muninn niður. Stjarnan nær samt að vera skrefinu á undan til loka fyrsta fjórðungs, sem endar 16-22. Liðsmenn KR berjast eins og ljón í öðrum leikhlutanum og verður aðeins ágengt í að vinna niður forskot Stjörnunnar, sem enn eru 4 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-38.

Nokkuð var farið að bera á villuvandræðum hjá lykilleikmönnum beggja liða í hálfleik. Með þrjár villur voru Fjóla Gerður Gunnarsdóttir og Anna María Magnúsdóttir hjá Stjörnunni og þá var Bo Guttormdóttir Frost einnig með 3 villur hjá Stjörnunni.

Stigahæst í fyrri hálfleiknum fyrir KR var Rebekka Rut Steingrímsdóttir með 11 stig á meðan að Ísold Sævarsdóttir var komin með 12 stig fyrir Stjörnuna.

Í upphafi seinni hálfleiksins var ljóst að róðurinn yrði aðeins þyngri fyrir Stjörnuna þessar seinni 20 mínútur þar sem að Ísold Sævarsdóttir hafði meiðst og kom ekki inn á völlinn með þeim í upphafi þriðja leikhlutans. KR gengur á lagið á þessum upphafsmínútum og kemst loks yfir með laglegu sniðskoti frá Fjólu Gerði í stöðunni 45-44 þegar sá þriðji er um það bil hálfnaður. Undir lok fjórðungsins skiptast liðin á körfum og forystunni í fjölmörg skipti, en þegar hann er á enda er Stjarnan enn 3 stigum yfir, 51-53.

Stjarnan mætir af miklum krafti inn í lokaleikhlutann. Ísold er komin aftur í liðið og ná þær þökk sé snöggum 8 stigum frá Bo að komast aftur 11 stigum yfir á fyrstu mínútunni, 51-62. KR gerir ágætis atlögu að forskoti Stjörnunnar undir lok leiksins. Ná þó ekki að komast einni körfu eða minna nálægt þeim fyrr en ein og hálf mínúta er eftir, 67-70. Stjarnan svarar því með snöggri körfu og villu og eru aftur komnar 6 stigum yfir, 67-73 þegar 1:20 eru eftir af leiknum, þar sem Fjóla Gerður fær sína fimmtu villu. KR fær tækifæri til að minnka muninn aftur, en undir lokin gerir Stjarnan vel að stýra hraðanum og loks setur Karólína Harðardóttir rýting fyrir þær þegar um 20 sekúndur eru eftir, 67-76, sem verða lokatölur leiksins.

Atkvæðamestar

Best í liði Stjörnunnar í dag var Bo Guttormsdóttir Frost með 23 stig, 8 fráköst, 3 stolna bolta, 2 varin skot og 24 framlagsstig. Henni næst var Hrafndís Lilja Halldórsdóttir með 17 stig, 4 fráköst og 3 stolna bolta.

Fyrir KR var Rebekka Rut Steingrímsdóttir atkvæðamest með 17 stig, 5 fráköst, 7 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Þá skilaði Anna Margrét Hermannsdóttir 19 stigum, 7 fráköstum, 4 stoðsendingum og 4 vörðum skotum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -