spot_img
HomeFréttirStjarnan vann öruggan sigur á Val (umfjöllun)

Stjarnan vann öruggan sigur á Val (umfjöllun)

 Stjarnan vann öruggan sigur á Val að Hlíðarenda í kvöld og fór því upp fyrir KR í annað sæti deildarinnar með 18 stig.  Stjarnan hafði góð tök á leiknum strax frá upphafi en Valsmenn sáu í raun aldrei til sólar í kvöld.  Stærsta forskot Stjörnunnar í leiknum voru 29 stig en þegar flautað var til loka leiks höfðu þeir 25 stiga sigur, 71- 96.  

Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Renato Lindmets með 20 stig en næstir voru Keith Cothran með 16 stig og Marvin Valdimarsson með 15 stig.  Stigahæstur hjá Val var Ragnar Gylfason með 14 stig en næstir voru Igor Tratnik og Birgir Pétursson með 13 stig hvor.  

Stjarnan byrjaði leikinn mun betur og það var strax ljóst að þarna væri topplið að mæta botnliði deildarinnar.  Stjarnan gerði heimamönnum lífið leitt og lokuðu á flesta sóknartilburði Vals.  Strax eftir fjórar mínútur var munurinn kominn í 6 stig, 2-8 og þegar leið á leikhlutan jókst þessi munur upp í 10 stig þangað til Ágúst Björgvinsson tók leikhlé fyrir Val, 6-16.  Valsmönnum tókst að rétta sinn hlut eftir leikhlé og minnkaði muninn niður í 5 stig, 13-18, en nær komust þeir ekki.  Jovan Zdravevski var mættur aftur í búning hjá þeim bláu og var ekki lengi að setja sitt mark á leikinn með tveimur þristum með stuttu millibili.  Stjarnan jók þannig muninn upp í 13 stig áður en flautað var til loka fyrsta leikhluta, 13-26.  

 

Stjarnan byrjaði annan leikhluta með krafti og fengu þá örfáu áhorfendur sem mættu til leiks á fætur með laglegu hraðaupphlaupi. Justin Shouse stal boltanum, brunaði fram og rétti Guðjóni Lárussyni boltan aftur fyrir bak sem tróð með látum.  Valsmenn hleyptu gestunum þó ekki mikið lengra frá sér og þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum munaði enn 13 stigum á liðunum, 24-37.  Stjarnan var sjóðandi heit fyrir utan línuna og höfðu sett niður 6 af 7 þriggja stiga tilraunum þegar annar leikhluti var hálfnaður.  Marvin Valdimarsson var studdur af velli þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik og virtist mjög þjáður.  Hann var strax settur á ís og fékk aðhlynningu sjúkrþjálfara liðsins.  Stjarnan jók forskotið smám saman áður en flautað var til hálfleiks en þá munaði 20 stigum á liðunum, 33-53.  

 

Stigahæstur Stjörnumanna í hálfleik var Jovan Zdravevski með 11 stig en næstir voru Keith Cothran með 9 stig og Justin Shouse með 7 stig og 6 stoðsendingar.  Hjá Val var Ragnar Gylfason stigahæstur með 12 stig en næstir voru Birgir Pétursson með 9 stig og Agust Magnus Bracey með 5 stig.  

 

Stjarnan hélt uppteknum hætti í þriðja leikhluta og léku við hvern sinn fingur.  Þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum höfðu þeir skorað 12 stig gegn 4 stigum Vals og Ágúst Björgvinsson tók leikhlé fyrir Val, 37-65.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu Stjörnumenn 23 stiga forskot, 44-67.   Lítið markvert gerðist það sem eftir var leikhlutans en Stjarnan bætti þó ekki meira við forskotið og þegar einn leikhluti var eftir stóðu tölur 56-75.

 

Liðin skiptust á að skora í upphafi fjórða leikhluta og lítil breyting á leikklukkunni.  Stjarnan virtist geta sett auka kraft í þetta þegar á reyndi og því minnkaði munurinn á liðunum aldrei meira en raun bar vitni.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður munaði 24 stigum, 63-87.  Bæði lið fóru að skipta yngri og óreyndari leikmönnum inná þegar leið á leikhlutan og leikurinn leystist nokkuð upp við það.  Leiknum lauk svo með öruggum 25 stiga sigri Stjörnunnar

 

Myndasafn eftir Tomasz Kolodziejski úr leiknum má finna hér

 

umfjöllun: [email protected] 

mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -