Fyrsti leikurinn í 1.deild kvenna fór fram í gærkvöld í Garðabænum þar sem Stjarnan og Grindavík mættust. Búast mátti við hörkuleik þar sem Stjarnan rétt missti af sæti í Iceland Express deildinni á síðasta tímabili á meðan Grindavík spilaði einmitt í þeirri deild í fyrra.
Það var mikill haustbragur á leik beggja liða í upphafi leiks og áttu bæði lið mjög erfitt með að skora og var staðan eftir fyrsta leikhluta 8-6. Stjarnan byrjaði síðan 2. leikhluta af miklum krafti og skoruðu 9 stig gegn 2 hjá Grindavík og staðan orðin 17-8. Venjulega myndi það ekki teljast mikill munur í körfubolta en þar sem bæði lið áttu í stökustu erfiðleikum með að skora þá skipti hver karfa miklu máli. Grindavík tókst með mikilli baráttu að ná muninum niður í 21-17 en Stjarnan skoraði síðustu 6 stigin í 2.leikhluta og leiddu 27-17 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var mun betri hjá báðum liðum og má segja að skrekkurinn sem fylgir oft fyrsta leik tímabilsins hafi verið horfinn og var jafnræði með liðunum það sem eftir lifði leiks. Staðan eftir 3ja leikhluta var 41-28 fyrir Stjörnunni og leiknum lauk 57-42 fyrir Stjörnunni. Munurinn á liðunum í gær var reynsla og hæð Stjörnustelpna gegn ungum og lágvöxnum Grindvíkingum.
Guðrún Ósk Guðmundsdóttir var stigahæst hjá Stjörnunni með 12 stig og Bryndís Hreinsdóttir skoraði 10 stig og áttu þær báðar fínan leik ásamt Báru Hálfdánardóttur og Láru Flosadóttur.
Hjá Grindavík var reynsluboltinn Sandra Guðlaugsdóttir stigahæst með 11 stig og Yrsa Ellertsdóttir var með 8 stig, einnig áttu Ingibjörg Sigurðardóttir og Julia Sicat góða spretti
Stigaskor Stjörnunnar: Guðrún 12, Bryndís 10, Bára 9, Lára 8, Erla 6, Heiðrún 5, Hanna 5, Hildur 2.
Stigaskor Grindavíkur: Sandra 11, Yrsa 8, Ingibjörg 8, Berglind 5, Helga 4, Jaenna 3, Katrín 2, Julia 1.
Mynd/ Úr safni: Frá viðureign Stjörnunnar og Vals á síðustu leiktíð
Bryndís Gunnlaugsdóttir