spot_img
HomeFréttirStjarnan tryggði sér oddaleik gegn Keflavík

Stjarnan tryggði sér oddaleik gegn Keflavík

Stjarnan lagði Keflavík í Umhyggjuhöllinni í dag í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Subway deildar kvenna, 86-79. Staðan í einvíginu því jöfn 2-2 og þarf oddaleik til að skera úr um hvort liðið mætir Njarðvík í úrslitum.

Fyrir leik

Staðan fyrir leik dagsins var 2-1 fyrir Keflavík og þurftu þær því aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sig í úrslitaeinvígið. Leikirnir þrír á undan höfðu allir unnist á heimavelli, þar sem Keflavík vann sína tvo og Stjarnan þennan eina sem farið hafði fram í Umhyggjuhöllinni.

Gangur leiks

Heimakonur í Stjörnunni byrjuðu betur í leik dagsins. Eru mest 12 stigum yfir á upphafsmínútunum, en munurinn er 11 þegar fyrsti fjórðungur er á enda, 30-19. Með góðu áhlaupi í byrjun annars nær Keflavík að vinna niður forskot Stjörnunnar og er leikurinn aftur orðinn jafn í stöðunni 38-38. Helst leikurinn svo jafn þangað til liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-42.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Denia Davis-Stewart með 15 stig á meðan Daniela Wallen var komin með 12 stig fyrir Keflavík.

Leikar haldast svo nokkuð jafnir inn í þriðja leikhlutann. Stjarnan nær hinsvegar sterku 7-0 áhlaupi rétt eftir miðjan fjórðunginn og er staðan 62-55 þegar rúmar tvær mínútur eru eftir af honum. Eftir leikhlé svarar Keflavík því nokkuð vel og er munurinn aðeins 3 stig fyrir lokaleikhlutann, 65-62. Stjarnan er svo með ágætis tök á leiknum vel inn í þann fjórða. Keflavík þó aldrei langt undan, en þegar fimm mínútur eru eftir af leiknum munaði 5 stigum á liðunum, 73-68. Áfram eru þær skrefinu á undan inn í brakmínútur leiksins, staðan 80-77 þegar tæpar tvær eru til leiksloka. Leikurinn helst svo nokkuð jafn fram á lokasekúndurnar, en Katarzyna Trzeciak setur gífurlega mikilvægan langan tvist til þess að koma Stjörnunni 5 stigum yfir þegar um 22 sekúndur eru eftir og segja má að það hafi ísað leikinn. Niðurstaðan að lokum 7 stiga sigur Stjörnunnar, 86-79.

Atkvæðamestar

Atkvæðamestar í liði Keflavíkur í leiknum voru Daniela Wallen með 24 stig, 14 fráköst og Sara Rún Hinriksdóttir með 13 stig og 15 fráköst.

Fyrir Stjörnuna var Denia Davis-Stewart atkvæðamest með 24 stig og 17 fráköst. Henni næst var Katarzyna Trzeciak með 27 stig og 6 fráköst.

Kjarninn

Miðað við hvað Keflavík skaut boltanum illa og hvað þær áttu erfitt með að ná í fráköst í leiknum áttu þær nákvæmlega ekkert skilið út úr þessum leik. Það skal þó passa sig að taka ekkert af Stjörnunni sem börðust eins og ljón frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og eru til alls líklegar í þessari úrslitakeppni.

Hvað svo

Oddaleikur liðanna fer fram komandi mánudag 13. maí í Blue höllinni í Keflavík.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -