spot_img
HomeFréttirStjarnan tók forystuna í algerum naglbít

Stjarnan tók forystuna í algerum naglbít

Stjörnumenn tóku í kvöld á móti ÍR í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino’s deildar karla. Í þessu einvígi mætast liðin sem enduðu í 2. og 7. sæti deildarinnar, en það hefur margoft sýnt sig og sannað að slíkt skiptir engu máli þegar í úrslitakeppnina er komið.

 

Eftir frábæra byrjun heimamanna leiddu Garðbæingar með 17 stigum í hálfleik, 49-32, en það var allt annað ÍR lið sem mætti til leiks í seinni hálfleik. Lærisveinar Borce Ilievski klóruðu sig hægt og rólega aftur inn í leikinn með frábærri vörn og náðu að komast yfir í fjórða leikhluta. Þá rönkuðu Stjörnumenn við sér eftir erfiðan seinni hálfleik og náðu loks að hrista gestina af sér. Svo fór að Garðbæingar unnu torsóttan en góðan 75-68 sigur og taka þar með 1-0 forystu í einvígi liðanna.

 

Lykillinn

 

Eftir að Stjörnumenn höfðu 17 stiga forystu í hálfleik, 49-32, komu ÍR-ingar dýrvitlausir inn í seinni hálfleik og komust einu stigi yfir í fjórða leikhluta. Eftir að ÍR-ingar komust yfir náðu þeir hins vegar ekki að framkvæma sóknarleik sinn nægilega vel, og eftir að Stjarnan komst fimm stigum yfir virtust Garðbæingar aldrei líklegir til að missa þá forystu niður.

 

Hetjan

Þó að Hlynur Bæringsson hafi skilað þrusugóðum tölum í kvöld var hrein unun að fylgjast með endurkomu Justin Shouse á völlinn eftir langt hlé. Justin kom virkilega ferskur inn í lið heimamanna og ljóst er að þeir hafa saknað hans mjög. Justin skoraði 17 stig í kvöld og sýndi meðal annars stáltaugar á vítalínunni þegar hann kom Garðbæingum fimm stigum yfir undir blálok leiksins. 

 

Tölfræðin

7. Stjörnumenn skoruðu 7 stig í þriðja leikhluta, en unnu þrátt fyrir það hörkusigur. 

 

Framhaldið

Leikur 2 verður næstkomandi laugardag klukkan 16 í Hertz-Hellinum. 

 

 

VIðtal við Hlyn Bæringsson leikmann Stjörnunnar eftir leik

Viðtal við Hrafn Kristjánsson þjálfara Stjörnunnar eftir leik

Viðtal við Borce Ilievski þjálfara ÍR eftir leik

Viðtal við Sveinbjörn Claessen leikmann ÍR eftir leik

 

Myndasafn 

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -