spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaStjarnan tók forystu í Þorlákshöfn

Stjarnan tók forystu í Þorlákshöfn

Undanúrslit Domino’s deildar karla hófust í kvöld þegar Þórsarar tóku á móti Stjörnunni í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn. Fyrir einvígið höfðu Þórsarar unnið nafna sína frá Akureyri í fjórum leikjum, en Stjörnumenn lögðu Grindvíkinga í oddaleik á föstudaginn var.

Leikurinn var jafn á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik, bæði lið náðu 5-7 stiga forskoti hér og þar, en mættu þá alltaf áhlaupi frá andstæðingunum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 23-21, heimamönnum í vil, og 48-47 í hálfleik.

Sama var uppi á teningunum í þriðja leikhluta. Stjörnumenn náðu fimm stiga forskoti um miðjan leikhlutann, 57-62, en Þórsarar svöruðu jafnharðan, og höfðu tveggja stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 69-67. Í lokafjórðungnum tóku Stjörnumenn hins vegar við sér. Garðbæingar opnuðu lokafjórðunginn á 12-0 áhlaupi og voru skyndilega komnir tíu stigum yfir, 69-79. Eftir það varð róðurinn þungur fyrir heimamenn. Þeir reyndu hvað þeir gátu að klóra í bakkann, og náðu muninum mest niður í fimm stig þegar tæp mínúta var eftir. Nær komust þeir hins vegar ekki, og unnu Stjörnumenn að lokum níu stiga sigur, 90-99.

Af hverju vann Stjarnan?

Hvorugt liðið hitti á sinn besta skotleik í kvöld, Þórsarar hittu úr 12 af 43 þriggja stiga skotum sínum (27 prósent nýting) á meðan 11 af 34 þristum gestanna rötuðu rétta leið. Í lokafjórðungnum settu Garðbæingar hins vegar gríðarlega mikilvæg skot þegar mest á reyndi. Sérstaklega má þar nefna þrist sem Arnþór Freyr Guðmundsson setti í stöðunni 84-89, þegar tæp mínúta lifði af leiknum. Stjörnumenn höfðu fyrir þristinn verið í sókn en fengu innkast þegar einungis fjórar sekúndur lifðu af skotklukkunni. Arnar Guðjónsson tók þá leikhlé og teiknaði upp stórglæsilegt kerfi þar sem boltinn barst á Hlyn Bæringsson sem sendi beint í hendurnar á Arnþóri sem tók hliðarstökkskot og setti boltann beint ofan í. Glæsileg karfa sem setti leikinn á ís fyrir gestina.

Bestur

Ægir Þór Steinarsson var frábær í liði Garðbæinga í kvöld og skilaði þrefaldri tvennu í hús með 26 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Enn ein stórkostlega frammistaðan hjá Ægi í úrslitakeppninni hingað til.

Hjá Þór var Larry Thomas bestur með 25 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar, auk þess sem Larry var sá eini í liði Þórs sem átti viðunandi dag fyrir utan þriggja stiga línuna, með fjóra þrista í átta tilraunum.

Framhaldið

Næsti leikur liðanna er í Mathús Garðabæjar höllinni fimmtudaginn 3. júní klukkan 20:15.

Fréttir
- Auglýsing -