spot_img
HomeFréttirStjarnan slapp með sigur

Stjarnan slapp með sigur

Í kvöld fór fram tvíhöfði í Ásgarði þar sem kvenna og karlalið Hauka heimsóttu Stjörnuna. Kvennaleikurinn fór fram fyrst og var það æsispennandi leikur sem endaði 77-75. Í leikinn vantaði stjörnukana Hauka, Keiru Robinson, en samkvæmt þjálfara liðsins meiddist hún á hné og fór í aðgerð. Haukarnir frumsýndu einnig þrjá nýja leikmenn. Önnu Soffíu, sem kom frá Breiðablik, og þær Victoriu og Aðalheiði sem komu frá Fjölni.

Leikurinn byrjaði frekar hægt og Stjarnan komst í 13-5 með lítið eftir. Haukar tóku leikhlé en eftir það pressuðu Stjörnukonur, stálu boltanum og settu sniðskot. Leikhlutanum lauk 16-9.

Annar leikhluti byrjaði á þremur þristum frá Önnu Soffíu en hún var með 6 samtals í leiknum úr 6 skotum. Haukarnir komust í sex stiga forskot en Stjörnunni tókst að minnka muninn og endaði fyrri hálfleikur 31-33 fyrir Haukum.

Seinni hálfleikur byrjaði á þrist frá Tinnu Guðrúnu. Stigaskorið flakkaði fram og til baka, en Haukarnir komust í sex stiga forskot. Þriðji leikhluti endaði 58-60.

Lokaleikhlutinn byrjaði jafnt og hélst það þannig út leikinn. Tinna Guðrún braut í fimmta skiptið og þurfti að fara útaf vellinum. Kolbrún María jafnaði fyrir Stjörnuna og nelgdi síðan þrist til að komast yfir. Eftir að klikka á sókn braut Þóra í sitt fimmta skipti til að stöðva tímann. Staðan varð 77-72 og setti Lovísa Henningsdóttir þrist til að komast í tveggja stiga mun. Haukar brutu á Deniu Davis-Stewart sem klikkaði á sínum tveimur vítum. Haukarnir höfðu því 14 sekúndur til að skora körfu og var það Lovísa sem tók lokaskotið; þristur sem geigaði. Leikurinn endaði því í 77-75 sigri fyrir Stjörnuna.

Leikmenn leiksins

Denia Davis-Stewart og Kolbrún María Ármannsdóttir voru sterkastar fyrir Stjörnuna. Denia með 21 stig og 15 fráköst, og Kolbrún með 22 stig og 12 fráköst.

Fréttir
- Auglýsing -