spot_img
HomeFréttirStjarnan skrefinu á undan Njarðvík

Stjarnan skrefinu á undan Njarðvík

 

Stjarnan sigraði Njarðvík í 8. umferð Domino´s deildar karla á heimavelli sínum, í Ásgarði, með 80 stigum gegn 70. Stjarnan færist því upp að hlið Njarðvíkur í þriðja sæti deildarinnar.

 

Fyrir leikinn voru einhver skörð skorin í leikmannahóp Stjörnunnar, þar sem að þeir Daði Lár og Tómas Þórður voru meiddir.

 

Í fyrsta leikhlutanum virtist eins og lið Njarðvíkur væri ekki alveg tilbúið í leikinn. Þó munurinn hafi í raun aldrei verið mikill, var Stjarnan þó oftar skrefinu á undan. Leikhlutinn endaði í tveggja stiga forystu heimamanna 21-19.

 

Annar leikhlutinn að mörgu leyti svipaður þeim fyrsta. Þar sem að Stjarnan var nú allan tímann með forystuna og fóru þeir með 8 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik. Atkvæðamestur fyrir þá var Al´lonzo Coleman með 11 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar á meðan að fyrir Njarðvík var það Maciej Baginski sem skilaði mestu með 9 stig, 6 fráköst og 2 stolna bolta.

 

Seinni hálfleikinn opnaði Haukur Helgi með tveimur vítaskotum eftir að Marvin Valdimarsson braut á honum (fékk í leiðinni sína 4. villu) Þegar að 2 mínútur voru liðnar af hlutanum var Stjarnan komin með 11 stiga forystu.

 

Um miðjan leikhlutann fær Marvin svo sína 5. villu (í formi ásetningsvillu sem dæmd var á hann) og í kjölfarið gerði Njarðvík atlögu að forystu Stjörnunnar. Haukur Helgi fékk í leiðinni dæmda á sig sína 4. villu þegar um 4 mínútur voru eftir. Þegar að sá 3. endaði var forskotið aðeins 3 stig fyrir heimamenn, 63-60.

 

Áfram hélt Njarðvík í fjórða leikhlutanum og þegar um 3 mínútur voru liðnar af honum náði Maciej Baginski loks að jafna fyrir sína menn með tveimur vítaskotum, 63-63. Skömmu eftir það (tæpri mínútu seinna – í stöðunni 65-63) fær Haukur Helgi svo dæmda á sig sína 5. villu. Við það má segja að ákveðið bit hafi farið úr áhlaupi Njarðvíkur.

 

Þegar 2 mínútur voru eftir var munurinn aftur kominn í 10 stig, 80-70, en ekkert var skorað þaðan af í leiknum. Stjarnan sigldi því þessum 10 stiga sigri í hús.

 

Maður leiksins var leikmaður Stjörnunnar Ágúst Angantýsson, en hann skoraði 18 stig, tók 5 fráköst, stal 1 bolta og varði 1 skot á þeim rétt rúmu 27 mínútum sem að hann spilaði.

 

Punktar:

  • Njarðvík fékk aðeins 2 stig af bekknum sínum í kvöld á móti 14 frá Stjörnunni.
  • Stjarnan tók 45 fráköst á móti 42 hjá Njarðvík.
  • Stjarnan gaf 20 stoðsendingar á móti 13 hjá Njarðvík.
  • Skotnýting Stjörnunnar var 45% (30/67) á móti 33% (21/63) hjá Njarðvík.
  • Vítanýting Stjörnunnar var 82% (14/17) á móti 65% (22/34) hjá Njarðvík.

 

Tölfræði

Myndir

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -