Stjarnan sigraði Keflavík með 78 stigum gegn 68 á heimavelli sínum, í Ásgarði, rétt í þessu. Keflavík því búnir að sigra einn leik tímabilsins og tapa tveimur líkt og Stjarnan. Þess ber að geta að sigurinn var sá fyrsti sem að Stjarnan vinnur í efstu deild.
Fyrir leikinn var svosem ekki við neinni sérstakri niðurstöðu að búast. Stjarnan, nýtt lið í efstu deild, að vinna hörðum höndum að því að setja saman liðið sitt eftir að hafa verið dugleg á leikmannamarkað sumarsins. Nældu t.a.m. í þær Rögnu Margréti Brynjarsdóttur (úr Val) og Margréti Köru Sturludóttur (frá Noregi). Keflavíkurliðið einnig í ákveðnum umskiptafasa, þar sem að kynslóðaskipti eldri leikmanna og þeirra ungu/efnilegu vega þyngst.
Það væri lygi að segja að fyrri hálfleikur þessa leiks hafi verið áferðarfallegur. Loftboltar, tapaðir boltar og ótímabærar aðgerðir virtust einkenna sóknarleik beggja liða. Sem dæmi þá taldi undirritaður heil fjögur loftköst á fyrstu fjórum mínútunum. Fyrir bæði lið voru það útlendir leikmenn, þær Chelsie Schweers (Stjarnan) og Melissa Zorning (Keflavík) sem að drógu vagninn. Fyrsti leikhlutinn endaði Keflavík í vil 13-18, en þegar að flautað var til hálfleiks hafði Stjarnan saxað lítið á þetta forskot gestana, 31-33.
Í seinni hálfleiknum byrjuðu heimastúlkur í Stjörnunni með látum (11-1 áhlaup) og virtist þá sem mestallur haustbragur fyrri hálfleikssins væri runninn af þeim. Eitthvað lifnaði síðan yfir Keflavík í framhaldinu, en náðu Stjörnustúlkur þó að lokum að gera forystuna að sinni, með einu stigi (55-54) fyrir lokaleikhluta leikssins.
Erfitt er að segja annað en að sókn Keflavíkur hafi hreinlega hrunið í fjórða leikhlutanum. Óöryggi og ákvarðanafælni plagaði þær sókn eftir sókn fyrstu mínúturnar. Stjarnan (eðlilega) gekk á lagið. Heimastúlkur voru komnar með 8 stiga forystu eftir (aðeins) fyrstu þrjár mínútur fjórða leikhlutans.
Keflavíkurstúlkur reyndu hvað þær gátu til þess að jafna eða komast aftur yfir, með mislukkuðum árangri. Voru minnst komnar í þriggja stiga mismun í leikhlutanum áður en að Stjarnan steig aftur á bensíngjöfina.
Þessari forystu má þá, að einhverju leyti, segja að Stjarnan hafi siglt heim í áðurnefndan 10 stiga sigur, 78-68.
Maður leiksins var leikmaður Stjörnunnar, Chelsie Schweers, en hún skoraði ein 36 stig, tók 10 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og stal 5 boltum á þeim 40 mínútum (öllum sem í leiknum voru) sem hún spilaði í kvöld.
Punktar:
- Meðalaldur byrjunarliðs Stjörnunnar var 25,4 ár á móti 19 hjá Keflavík.
- Chelsie Schweers spilaði allr mínútur í leik kvöldsins og var aðeins hárbreidd frá þrefaldri tvennu (vantaði 2 stoðsendingar)
- Keflavík tók 54 fráköst á móti 42 hjá Stjörnunni.
- Keflavík tapaði 22 boltum, en Stjarnan aðeins 15.
- 9 leikmenn Keflavíkur komust á blað í stigaskorun, en aðeins 6 hjá Stjörnunni.
- Bæði lið eiga leiki þann 24. næstkomandi. Stjarnan ferðast til Grindavíkur á meðan að Keflavík tekur á móti Haukum.
Tölfræði
Myndasafn (Bára Dröfn)
Umfjöllun,viðtöl / Davíð Eldur