spot_img
HomeFréttirStjarnan sigrar enn (Umfjöllun)

Stjarnan sigrar enn (Umfjöllun)

23:16
{mosimage}

(Jovan átti fínan dag í liði Stjörnunnar)

Stjarnan tók á móti Tindastóli í kvöld á heimavelli sínum, Ásgarði í Garðabæ.  Stjarnan tryggði sér í síðustu viku sæti í úrslitum Subwaybikarkeppninnar í fyrsta sinn í sögu félagsins en Stólarnir höfðu átt misjöfnu gengi að fagna í síðustu leikjum, en Skagfirðingarnir höfðu einungis unnið einn af síðustu sex leikjum sínum í deildinni.

Í upphafi var leikurinn frekar jafn og ljóst að hvorugt liðið mætti við tapi. Stjörnumenn höfðu þriggja stiga forskot nánast allan leikhlutann og virtust spila betur en gestirnir af Króknum, en náðu þó ekki að hrista af sér Stólana. Eftir góðan þrist frá Jovan Zdravevski leiddu Garðbæingar með fimm stigum eftir fyrsta fjórðung, 22-17.

Stjörnumenn komu grimmari til leiks í öðrum leikhluta og náðu ágætis forskoti. Stólarnir virkuðu dálítið stirðir í sóknarleiknum og Stjarnan hitti ágætlega úr skotunum sínum. Þrátt fyrir ágætis baráttu norðanmanna hélt Stjarnan forskoti sínu út að hálfleik og jók við það á lokamínútum leikhlutans. Staðan í hálfleik var 49-38, heimamönnum í vil.

Greinilegt var að Kristinn Friðriksson hafði haldið ekta hárblásararæðu yfir sínum mönnum í hálfleik því það var allt annað Tindastólslið sem mætti til leiks í þriðja leikhluta. Gestirnir pressuðu stíft og börðust vel undir körfunni og innan tveggja mínútna var munurinn kominn niður í 4 stig. Birkir Guðlaugsson smellti þá einum þrist og kom Stjörnunni aftur á lagið, en nokkrum mínútum síðar hafði Stjarnan náð 11 stiga forskoti á ný. Því forskoti héldu þeir til loka þriðja fjórðungs og var staðan 71-61, fyrir lokaleikhlutann.

Tindastóll hóf strax að saxa á forskot Stjörnunnar í byrjun fjórða leikhluta. Friðrik Hreinsson fór fyrir Skagfirðingunum og hitti afar vel og um miðbik leikhlutans var munurinn kominn niður í þrjú stig, 76-73, og allt útlit fyrir að Stjarnan þyrfti að leika enn einn spennuleikinn. Garðbæingar héldu þó haus og stóðust áhlaup Stólanna og sigruðu að lokum með 4 stigum, 86-82.

Stigahæstir Garðbæinga í kvöld voru Justin Shouse og Jovan Zdravevski með 21 stig, auk þess sem Justin gaf 10 stoðsendingar. Hjá Stólunum var Friðrik Hreinsson atkvæðamestur með 22 stig.

Stjarnan er eftir leikinn í 7. sæti með 12 stig, eftir sigur í fjórum af síðustu fimm leikjum sínum en Tindastóll hefur nú aðeins krækt í sigur í einum af síðustu sjö leikjum sínum. 

Texti: Elías Karl Guðmundsson
Myndir:
[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -