spot_img
HomeFréttirStjarnan sigraði eftir spennandi lokamínútur

Stjarnan sigraði eftir spennandi lokamínútur

 
Stjarnan sigraði Fjölni í Grafarvoginum í kvöld, 92-97. Stjarnan leiddi allan leikinn en Fjölnir var aldrei langt undan og tókst að gera leikinn æsispennandi á lokamínútunum. Það dugði hins vegar ekki til því Stjarnan hleypti þeim aldrei nær en 2 stigum í lokaleikhlutanum. Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Justin Shouse með 24 stig en næstir voru Jovan Zdravevski með 23 stig og 7 fráköst og Fannar Helgason með 16 stig og 9 fráköst. Hjá Fjölni voru Brandon Springer og Magni Hafsteinsson með 20 stig hvor, Jón Sverrisson með 17 stig og Ægir Þór Steinarsson með 13 stig, 8 fráköst og 14 stoðsendingar.
Stjarnan hafði frumkvæðið í byrjun leiks en bæði Jovan Zdravevski og Renato Lundmets byrjuðu leikin vel og skoruðu meira en helming stiga Stjörnunnar í fyrsta leikhluta, 14 af 24 stigum. Fjölnismenn voru hins vegar aldrei langt undan og voru aðeins 2 stigum undir eftir fyrsta leikhluta, 22-24. Fjölmismenn virtust halda sér inní leiknum með flottri pressuvörn og hröðum upphlaupum í kjölfarið. Þessi pressuvörn virtist oft slá Stjörnumenn nokkuð út af laginu.
 
Stjarnan hélt áfram frumkvæðinu í öðrum leikhluta og virtust geta haldið aftur af heimamönnum þegar þeir náðu að stilla upp í vörn. Fjölnir sótti hins vegar hratt og fengu nokkrar auðveldar körfur í kjölfarið. Stjarnan náði 6 stiga forskoti þegar annar leikhluti var að verða hálfnaður, 31-37. Gestunum tókst að halda þessu forskoti þrátt fyrir klaufagang en þeir voru að gefa klaufalegar sendingar og létu pressuvörn heimamanna oft fara illa með sig. Þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik höfðu heimamenn hins vegar náð að minnka forskotið aftur niður í 3 stig, 40-43. Stjarnan hafði 6 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 43-49.
 
Stigahæstur í hálfleik í liði gestana var Jovan Zdravevski með 15 stig en næstir voru Renato Lindmets með 14 stig og Daníel Guðmundsson með 9 stig. Hjá Fjölni var Tómas Tómasson stigahæstur með 10 stig en næstir voru Jón Sverrisson með 9 stig og Brandon Springer með 8 stig.
 
Fjöænismenn minnkuðu muninn á fyrstu mínútum þriðja leikhluta niður í 3 stig, 48-51 en þá settu Stjörnumenn niður tvo þrista í röð og voru aftur komnir með þægilegt forskot. Hlutirnir voru fljótir að gerast í upphafi þriðja leikhluta og það munaði aftur aðeins 2 stigum á liðunum þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 58-60. Bæði liðin keyrðu hratt og stigin röðuðust upp á stigatöfluna. Stjarnan var sjóðandi heit fyrir utan þriggja stiga línuna og það var sama hvað heimamenn reyndu, Stjarnan skaut sér alltaf framúr með laglegum þristum. Þegar flautað var til loka þriðja leikhluta hafði Stjarnan 9 stiga forskot, 69-78.
 
Stjarnan skoraði fyrstu 4 stigin í fjóðra leikhluta og virtust ætla að sigla framúr, 69-82. Fjölnismenn svöruðu því með því að pressa hátt og spiluðu hörku vörn í kjölfarið. Þegar þrjár mínútur voru liðnar munaði 8 stigum, 74-82. Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu Fjölnismenn náð að minnka muninn niður í 5 stig, 77-82 og því haldið gestunum stigalausum í rúmar tvær mínútur. Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar tók í kjölfarið leikhlé. Fjölnismenn minnkuðu muninn enn frekar og áhorfendur tóku vel við sér eftir leikhléið. Leikurinn var orðinn æsispennandi þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir og aðeins munaði 3 stigum, 79-82. Justin Shouse skoraði hins vegar langþráð stig fyrir gestina stuttu seinna og kom þeim aftur í 6 stiga forskot, 79-85.
 
Renato Lindmets fór útaf með sína fimmtu villu þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir og sendi Ægi Steinarsson á línuna. Ægir minnkaði muninn niður í 2 stig, 83-85 en Justin Shouse svaraði stuttu seinna fyrir utan þriggja stiga línuna eins og honum einum er lagið. Fjölnismenn tóku leikhlé þegar ein og hálf mínúta var eftir en þá munaði 6 stig á liðunum, 85-91. Fjölnismenn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn og þegar 34 sekúndur voru eftir munaði aðeins 3 stigum, 92-95, þegar Teitur tók leikhlé fyrir gestina. Störnumenn notuðu 23 af þeim 24 sekúndum sem þeim stóð til boða eftir leikhléið en þá var dæmt skref á Justin Shouse. Fjölnismenn tóku því leikhlé í kjölfarið með 10 sekúndur eftir á klukkunni. Sókn Fjölnismanna tókst augljóslega ekki eins og til var ætlast en Brandon Springer tók neyðarskot með mann í sér þegar 5 sekúndur voru eftir sem geigaði og brutu þeir á Jovan Zdraveski í kjölfarið sem kláraði leikinn á línunni, 92-97.
 
Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Justin Shouse með 24 stig en næstir voru Jovan Zdravevski með 23 stig og 7 fráköst og Fannar Helgason með 16 stig og 9 fráköst. Hjá Fjölni voru Brandon Springer og Magni Hafsteinsson með 20 stig hvor, Jón Sverrisson með 17 stig og Ægir Þór Steinarsson með 13 stig, 8 fráköst og 14 stoðsendingar.
 
 
Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -