spot_img
HomeFréttirStjarnan ósigraðir

Stjarnan ósigraðir

Alltaf er fjör þegar Stjarnan mætir í Fjárhús Snæfells og á því var engin undantekning í kvöld. Garðbæingar höfðu tekið tvo fyrstu leiki sína eins og Snæfell og ætla þessi lið sér eitthvað stórt í vetur. Stjarnan sigraði leikinn 81-82 en bæði lið voru ekkert að leika neina meistraraleiki og gat farið hvernig sem var.
Stjörnumenn byrjuðu af krafti þar sem Magnús Helgason fór mikinn en Snæfell lét ekki stuða sig í byrjun og var leikurinn hnífjafn í upphafi. Fyrsti hluti var hraður en ekki áferðafallegur hvað svo sem það er. Snæfell náði betra starti og voru yfir eftir fyrsta hluta 23-17 þegar Hlynur kom þeim aðeins framar með einum þrist í þriðju tilraun en Justin átti svo lokaskotið þegar hann labbaði í gegnum vörn Snæfells.
 
Stjörnumenn voru ekki af baki dottnir í byrjun annars hluta og komu með látum bæði í vörn og sókn með þá Justin og Jovan fremsta í flokki og höfðu þeir sett 10 stig hvor í stöðunni 29-33 fyrir Stjörnuna. Snæfell náði að jafna 35-35 en leikurinn hafði verið svolítið frosinn seinni hluta annars fjórðungs. Eitthvað var þó líf í tuskunum undir lok hlutans og var skorað á víxl en leikhlutinn endaði nákvæmlega eins og fyrsti, Hlynur setti þrist og Justin labbaði í gegnum vörn Snæfells. Staðan í hálfleik var 41-42 fyrir Stjörnumenn og rosastuð í bænum.
 
Hjá Snæfelli var Hlynur kominn með 13 stig og 6 frák. Emil 7 stig, Nonni og Svenni 6 stig hvor. Hjá Stjörnunni var Jovan Zdravevski kominn með 15 stig og 5 frák. Magnús Helgason 13 stig. Justin með 10 stig.
 
Áfram hélt jafnræði liðanna og voru þau bæði að gera ágætishluti og líka eitthvað rugl. Til að mynda var Fannar Helgason ekki svipur hjá sjón og einungis kominn með 4 stig um miðjann þriðja hluta líkt og Sigurður Þorvalds og hafa þessir kappar séð betri daga þó Sigurður hafi svarað kallinu strax með góðum þrist um leið og þetta var skrifað. Stjarnan hafði skrefið á undan þó þriggja stiga skyttan Hlynur kæmi Snæfelli nær í stöðunni 59-61 undir lok þriðja hluta. Staðan var svo 62-64 fyrir Stjörnuna fyrir lokahlutann og var að færast spenna og harka í leikinn og voru menn að gerast mistækir á báða bóga eða réttara sagt alla bóga.
 
Nonni jafnaði 64-64 fyrir Snæfell en Stjarnan setti smá stopp á þá og komst í 66-73 strax í upphafi fjórða hluta. Eftir að hafa verið 9 stigum undir 67-76 tóku Snæfell til í vörninni hjá sér og stöðvuðu áhlaupið og komust yfir 77-76 með flugi frá Hlyn Bærings og Sigga Þorvalds. Leikurinn var alveg gríðarspennandi síðustu tvær mínúturnar. Birgir Björn fauk útaf með 5 villur eftir óíþróttamannslega villu og Emil Þór jafnaði 78-78 af vítalínunni. Magnús Helgason fór svo eftir næstu sókn Snæfells út af með 5 villur og Sigurður Þorvalds setti bæði vítin niður 80-78 þegar mínúta var eftir. Justin jafnaði 80-80 eftir stolinn bolta og Hlynur setti niður 1 af vítalínunni frægu 81-80 og 15 sek voru eftir. Justin fór á línuna þegar 3 sek voru eftir og setti bæði niður og leikhlé tekið, ekki náði Snæfell að nýta sér 3 sekúndur en Hlynur átti þröngt þriggja stiga skot sem geigaði og Stjarnan hafði erfiðan en mikilvægann sigur 81-82 með úr Hólminum.
 
Hjá Snæfelli var Hlynur með 24 stig og 11 fráköst. Sigurður fór allur í gang í fjórða hluta og setti 17 stig en var bragðdaufur framan af. Jón Ólafur var með 14 stig og 7 fráköst. Emil 12 stig. Snæfellingar hljóta að kalla eftir meira framlagi í heildina fyrir næsta leik. Hjá Stjörnunni var Justin með 26 stig og 9 stoðs. Jovan með 23 stig og 8 frák. Magnús Helgason með 15 stig. Fannar Helgason hefur átt betri daga en hann fékk högg á hnéð sem gæti orðið blóðtaka fyrir Stjörnuna en það kemur í ljós.
 
Símon B Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -