spot_img
HomeFréttirStjarnan-Njarðvík: Njarðvíkursigur í Ásgarði

Stjarnan-Njarðvík: Njarðvíkursigur í Ásgarði

Njarðvíkingar nældu sér í tvö mikilvæg stig í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni þegar þeir lögðu Stjörnuna í Ásgarði 77-87. Elvar Már Friðriksson fór fyrir Njarðvíkingum með 26 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Stjörnunni var Brian Mills atkvæðamestur með 21 stig og 11 fráköst. Njarðvíkingar hafa 14 stig í deildinni í 7. sæti eftir sigurinn í kvöld en Stjörnumenn eru áfram í 6. sæti deildarinnar með 18 stig og hafa tapað fjórum deildarleikjum í röð. Hér að neðan fer textalýsing frá leiknum í kvöld og látum við hana standa sem umfjöllun leiksins.
 
 
4. leikhluti
 
* Leik lokið…lokatölur 77-87 fyrir Njarðvík.
 
* Fjölmargir ,,stuðningsmenn” Stjörnunnar eru búnir að yfirgefa húsið. 
 
– 76-82 Brian Mills með þrist og 20,8 sek eftir af leiknum…heimamenn brjóta strax og senda gestina á línuna.
 
– 73-82 og leikurinn að fjara út…Stjörnumenn hafa verið að brjóta og senda gestina á línuna en það er eltingaleikur sem endar bara á einn veg því munurinn er orðinn of mikill.
 
– 69-77 og 46 sekúndur eftir af leiknum, Njarðvíkingar á leið á vítalínuna og það er nokkuð ljóst hvert stigin tvö fara í kvöld.
 
– 65-76 Elvar með eitt víti niður fyrir Njarðvíkinga og 1.51mín eftir af leiknum. Nánast kraftaverk eitt getur bjargað Stjörnunni frá tapi í þessum leik…
 
– 65-75 Ólafur Helgi með rándýrt sóknarfrákast og skorar viðstöðulaust…strax í næstu Stjörnusókn landar Elvar Már ruðningi á Stjörnusóknina. Njarðvíkurbakkarinn Elvar að fara mikinn hér í Ásgarði og besti maður vallarins til þessa. – Stjarnan tekur leikhlé.
 
– 65-73 og Shouse með tvö á línunni, 3.33mín eftir af leiknum og læti framundan, það er nokkuð víst.
 
– 62-71 og munurinn kominn undir 10 stig eftir eitt víti frá Shouse.
 
– 61-71 Jarrid Frye skorar og fær villu að auki, vítið vildi ekki niður.
 
– 57-69 fyrir Njarðvík og 7.29mín eftir af leiknum hér í Ásgarði. Njarðvíkingar hafa verið virkilega þéttir í sínum varnarleik síðustu mínútur og Marcus Van er heldur betur vaknaður, kominn með 17 fráköst kallinn. Stjörnumenn í bullandi vandræðum í sínum sóknaraðgerðum.
 
Fjórði leikhluti hófst eins og sá þriðji endaði…með þrist frá Elvari Má í Njarðvíkurliðinu. Staðan er 55-67 fyrir Njarðvík og tæp mínúta liðin þegar Teitur tekur leikhlé fyrir heimamenn.
 
(Jarrid Frye með troðslu í þriðja leikhluta)
 
3. leikhluti (15-30)

– 55-64 og leikhluta lokið! Elvar Már með flautukörfu úr stóruskrákaskúffunni…svaðaleg lok á leikhlutanum hjá Njarðvíkingum. Breyttu stöðunni úr 53-47 í 55-64 og unnu lokasprett leikhlutans því 2-17!
 
– 53-59 og 12-0 ,,run” hjá Njarðvík áður en Mills skorar fyrir Stjörnuna og staðan orðin 55-59 og 40 sek eftir af þriðja!
 
– Allt að ganga upp hjá Njarðvík í augnablikinu því nú var verið að dæma óíþróttamannslega villu á Brian Mills og Njarðvík kemst í 53-57 og fá boltann aftur. eru á 10-0 ,,runni” um þessar mundir.
 
– 53-56 Maciek Baginski með þrist og grænir gestnirnir í þrusustuði um þessar mundir.
 
– 53-51 og Marcus Van með Njarðvíkurtroðslu og sín fyrstu stig síðan í fyrsta leikhluta!
 
– 53-49 og 3.30mín eftir af þriðja.
 
– 53-47 og heimamenn sprækari eftir ,,gólfbrotshléð” og gera fjögur fyrstu stigin eftir hlé.

* Enn er hlé á leiknum meðan unnið er að viðgerðum á parketinu, búið að ,,teipa” yfir brotið og ákveðið að halda leik áfram…6.02mín eftir af þriðja leikhluta og staðan 49-47 fyrir Stjörnuna…vonum að þetta setji menn ekki á hælana því fyrstu fjórar mínútur leikhlutans voru ansi líflegar.

 
* Hér hefur komið upp athyglisverð staða…hlé er gert á leiknum þar sem Oddur Rúnar braut fjöl í parketinu í Ásgarði þegar hann lenti í gólfinu! Dómaraleikhlé var tekið og nú er unnið að parketinu…
 
– 49-47 og Njarðvíkingar eru að nálgast Stjörnuna að nýju…hér er þó að draga til tíðinda. Oddur Rúnar Kristjánsson skellur í gólfið með miklum látum en virðist þó vera í lagi. Marcus Van haltrar þó eftir hamaganginn í teignum og kennir sér eymsla í hné…leikhlé.
 
– 45-42 eftir þrist frá Elvari Má…síðari hálfleikur byrjar mun fjörugari en sá fyrri var…menn aðeins að taka við sér í Garðabænum.
 
– Þriðji leikhluti er hafinn hér í Ásgarði, það eru heimamenn í Stjörnunni sem byrja með boltann og Jovan Zdravevski opnar með þrist og breytir stöðunni í 43-34 fyrir heimamenn.
 
(Ágúst Orrason í ,,traffík” í Ásgarði í fyrri hálfleik )
 
Skotnýting liðanna í hálfleik
Stjarnan tveggja 44% – þriggja 36,3% og víti 75%
Njarðvík tveggja 42,3% – þriggja 18,1% og víti 60%
 
2. leikhluti (23-13)
 
– Hálfleikur…staðan 40-34 í hálfleik fyrir Stjörnuna…flautuskot frá Jarryd Frye rétt dansaði upp úr.
 
– 40-34 Hjörtur Hrafn með tvö stig fyrir Njarðvíkinga…
 
– 40-32 Brian Mills skorar í teignum eftir sitt eigið sóknarfrákast en í vörninni þar á undan varði hann glæsilega skot frá Marcus Van.
 
– 38-31 Garðbæingar með 4-0 dembu á skömmum tíma.
 
– 34-31 Nigel Moore með stökkskot í Stjörnuteignum og 3.00mín til hálfleiks.
 
– 4 mínútur eftir af fyrri hálfleik og leikhlé í gangi…Jarryd Frye kominn með 10 stig og 4 fráköst í liði Stjörnunnar en Marcus Van og Nigel Moore eru báðir með 6 stig í Njarðvíkurliðinu.
 
– 34-27 Kjartan Atli með Stjörnuþrist eftir sóknarfrákast og stoðsendingu frá Sæmundi Valdimarssyni. Heimamenn í Garðabæ eru mun sterkari í þessum öðrum leikhluta en Marcus Van hefur þó verið þeim erfiður í leiknum.
 
– 28-25 fyrir Stjörnuna og 4 mínútur liðnar af öðrum leikhluta og heimamenn hafa gert 11 stig gegn fjórum frá Njarðvík á þessum tíma.
 
– 26-21 Jovan með þrist og 9-0 byrjun hjá Stjörnunni á leikhlutanum, Jovan svellkaldur af bekknum með þristinn.
 
– 21-21…Jarryd Frye jafnar fyrir Stjörnuna eftir stolinn bolta sem lyktaði með troðslu. Heimamenn ekki lengi að jafna metin…
 
 Annar leikhluti er hafinn…
 
(Ólafur Helgi Jónsson sækir að Stjörnukörfunni í 1. leikhluta)
 
1. leikhluti
 
Leikhluta lokið…staðan 17-21 fyrir Njarðvík. Jarryd Frye reyndi þriggja stiga skot fyrir Stjörnuna um leið og leiktíminn rann út en boltinn vildi ekki niður.
 
– 17-21 eftir troðslu frá Marcus Van þegar 20 sek eru eftir af leikhlutanum.
 
– 17-17 og 2.15mín eftir af öðrum. Liðin mættu þétta varnirnar, frekar losaralegar þennan fyrsta leikhluta.
 
– 15-15 og enn jafnar Elvar Már fyrir Njarðvík og nú með þriggja stiga körfu. 3.03 mín eftir af fyrsta leikhluta.
 
– 12-12 Elvar Már jafnar fyrir Njarðvík af vítalínunni. Grænir hafa verið í smá basli með Mills í teignum en eru að reyna að keyra upp hraðann á meðan heimamenn vilja bersýnilega fara sér hægar í sakirnar.
 
– 10-9 fyrir Stjörnuna og 5 mínútur liðnar af fyrsta leikhluta. 
 
– 6-5 og heimamenn svara með sínu eigin 5-0 áhlaupi, Brian Mills mætti þarna með þrist. Þetta fer fremu rólega af stað hér í Ásgarði.
 
– 1-5 Njarðvíkingar með fimm stig í röð, fyrst Marcus Van í teignum og svo Maciek Baginski með þriggja stiga körfu.
 
– Brian Mills gerir fyrstu stig leiksins og kemur Stjörnunni í 1-0 af vítalínunni, brenndi af fyrra vítinu.
 
– Leikurinn er hafinn og það eru Njarðvíkingar sem vinna uppkastið.
 
– Byrjunarlið kvöldsins
Stjarnan: Justin Shouse, Oddur Kristjánsson, Jarrid Frye, Brian Mills og Fannar Helgason
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Nigel Moore, Maciek Baginski, Ólafur Helgi Jónsson og Marcus Van.
 
– Þá ætti þetta að fara að bresta á, búið að flauta inn 3 mínútur og búið að leysa skotklukkuvandann. 
 
– Tafir á leiknum í Ásgarði þar sem skotklukkan í húsinu vill ekki af stað. 
Fréttir
- Auglýsing -