spot_img
HomeFréttirStjarnan meistarar meistaranna

Stjarnan meistarar meistaranna

Hin árlega meistarakeppni KKÍ fór fram í kvöld í Mathús Garðabæjarhöllinni í Garðabæ, þar sem mættust deildar- og bikarmeistarar síðasta árs, Stjarnan, og silfurlið bikarkeppninnar, lið Grindavíkur. Stjörnumenn höfðu tögl og hagldir og eftir að Grindavík komst í 4-1 eftir um mínútu leik litu Garðbæingar aldrei um öxl og leiddu á öllum tölum eftir það. Svo fór loks að Stjörnumenn unnu afar öruggan tuttugu stiga sigur, 106-86 og eru því meistarar meistaranna karlamegin.

Afhverju vann Stjarnan?

Grindvíkingar mættu til leiks með níu menn á skýrslu og þrátt fyrir ágætis fyrri hálfleik þá sást vel að byrjunarliðsmenn Grindavíkur voru ekki eins fráir á fæti í seinni hálfleik og þeim fyrri, og það nýttu Stjörnumenn sér. Allir þeir ellefu sem skráðir voru á skýrslu hjá Garðbæingum komust til að mynda á blað.

Bestur

Erfitt er að taka út einn leikmann út fyrir sviga í liði Stjörnunnar, en Mirza Sarajlija var góður með sjö þrista úr ellefu tilraunum, 64% nýting. Hlynur Bæringsson stóð einnig fyrir sínu með 15 stig og 11 fráköst, og þá má einnig nefna tvíburana af Vestfjörðum, þá Huga og Hilmi Hallgrímssyni sem sýndu flotta tilburði á parketinu á báðum endum. Hjá Grindavík var Garðbæingurinn Dagur Kár Jónsson bestur með 30 stig, en Joonas Jarvelainen og Björgvin Hafþór Ríkharðsson voru einnig góðir.

Framhaldið

Næstu leikir liðanna verða í fyrstu umferð Domino’s deildar karla sem hefst næstkomandi fimmtudagskvöld. Grindvíkingar halda þá austur til Egilsstaða, þar sem þeir mæta Hetti, en degi síðar mæta Stjörnumenn Val í Origo-höllinni.

Fréttir
- Auglýsing -