spot_img
HomeFréttirStjarnan Maltbikarmeistari í 10. flokki drengja

Stjarnan Maltbikarmeistari í 10. flokki drengja

 

Það voru Stjörnumenn og Þórsarar frá Akureyri sem mættust í dag í bikarúrslitum 10. flokks drengja í Laugardalshöll. Þessi lið hafa ásamt Keflavík verið sterkustu liðin í 10. flokki þetta tímabil og því var búist við hörkuleik. Eftir frábæra byrjun Þórsara voru það Garðbæingar sem tóku öll völd á vellinum og lönduðu bikarmeistaratitlinum eftir frábæran seinni hálfleik, lokatölur 59-68.

 

Lykillinn

Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti, spiluðu frábæra vörn og Stjörnumenn virtust ekki hafa nein svör við Júlíusi Orra Ágústssyni, en Júlíus skoraði 16 stig í fyrsta leikhluta. Þórsarar leiddu 20-13 eftir fyrsta fjórðunginn. Þá rönkuðu Stjörnumenn heldur betur við sér. Garðbæingar skelltu í lás í vörninni í öðrum leikhluta og unnu fjórðunginn 21-5. Dúi Þór Jónsson og Ingimundur Orri Jóhannsson tóku síðan yfir í sókninni og sáu til þess að Stjarnan fór í leikhlé með níu stiga forystu, 34-25. Eftir þennan frábæra annan leikhluta litu Stjörnumenn aldrei til baka og uppskáru að lokum glæsilegan sigur og bikarmeistaratitilinn.

 

Maður leiksins

Dúi Þór Jónsson var frábær í liði Stjörnunnar í dag, en hann skoraði 31 stig, tók 6 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Dúi skoraði því yfir 30 stig í tveimur úrslitaleikjum þessa helgina, en hann skoraði 34 stig í tapi drengjaflokks Stjörnunnar gegn KR síðasta föstudagskvöld. Virkilega spennandi leikmaður hér á ferð sem fór oft og tíðum ansi illa með Þórsvörnina. Fylgist með þessum! Júlíus Orri Ágústsson var bestur Þórsara með 28 stig og 7 stoðsendingar.

 

Tölfræðin

Stjarnan vann annan leikhluta 21-5, sem lagði eins og áður sagði grunninn að sigri liðsins. Eftir erfiðan fyrsta leikhluta komu Garðbæingar dýrvitlausir inn í annan fjórðung og litu aldrei um öxl eftir það.

Til hamingju Stjörnumenn!

 

Tölfræði leiks

Myndasafn #1(Bára Dröfn)

Myndasafn #2 (á leiðinni)

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Myndir / Ólafur Þór og Bára Dröfn

Viðtal / Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -