spot_img
HomeFréttirStjarnan leggur inn kæru vegna olnbogaskotsins í Keflavík

Stjarnan leggur inn kæru vegna olnbogaskotsins í Keflavík

Garðbæingar hafa lagt inn kæru til KKÍ vegna atviks sem kom upp í öðrum leik Stjörnunnar og Keflavíkur þegar Magnús Þór Gunnarsson leikmaður Keflavíkur rak olnboga í andlit Marvins Valdimarssonar leikmann Stjörnunnar. Önnur framtönn Marvins brotnaði við bein en hann kláraði engu að síður leikinn. Stjarnan hefur nú lagt fram kæru í málinu.
Þegar atvikið kom upp í Keflavík var í fyrstu dæmt sóknarbrot á Magnús sem síðar var breytt í óíþróttamannslega villu. Í starfsreglum dómaranefndar KKÍ sem gefnar voru út fyrir yfirstandandi leiktíð kemur m.a. fram að lögð verði áhersla á að stöðva grófan og hættulegan leik. Í starfsreglunum segir:
 
,,Lögð er áhersla á að stöðva grófan og hættulegan leik. Dómarar skulu sérstaklega taka á
atvikum þar sem olnboga er sveiflað ógætilega, hvort heldur er af ásetningi eða ósjálfrátt,
með eða án knattar. Til viðmiðunar skulu dómarar hafa þetta í huga:
 
i. Olnbogi sem snertir andstæðing ekki
Tæknivilla.
ii. Olnbogi sem snertir andstæðing laust í búk eða útlimi
Óíþróttamannsleg villa.
iii. Olnbogi snertir búk eða útlimi andstæðings kröftuglega
Brottrekstrarvilla.
iv. Olnbogi sem snertir háls eða höfuð andstæðings
Brottrekstrarvilla.
 
Samkvæmt þessu þar sem olnbogi Magnúsar fór í andlit Marvins hefði Magnús geta fengið dæmda á sig brottrekstrarvillu. Þetta ætla Stjörnumenn að láta reyna á en ef málið verður tekið fyrir í dag og dæmt í því í dag gæti verið að Magnús myndi missa af oddaleik Stjörnunnar og Keflavíkur ef hann fær bann. Magnús hefur verið á meðal bestu leikmanna deildarinnar í vetur og alger lykilmaður í liði Keflavíkur og ef hann fær bann syrtir heldur betur í álinn hjá bikarmeisturunum.
 
 
Oddaleikur Stjörnunnar og Keflavíkur um laust sæti í undanúrslitum Iceland Express deildar karla fer fram í Ásgarði á morgun.
 
Mynd/ Marvin Valdimarsson heldur um munninn á sér eftir að hafa fengið olnboga Magnúsar í sig.
 
Fréttir
- Auglýsing -