spot_img
HomeBikarkeppniStjarnan lagði Stólana með minnsta mun mögulegum í hitaleik í Síkinu

Stjarnan lagði Stólana með minnsta mun mögulegum í hitaleik í Síkinu

Tindastóll og Stjarnan mættust í hörkubikarleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stjarnan hafði slegið lið Tindastóls út úr bikarkeppni haustsins og Stólar staðráðnir að hefna þeirra ófara en niðurstaðan varð Stjörnusigur í æsispennandi körfuboltaleik.


Leikurinn fór frekar rólega af stað sóknarlega og liðin voru að klikka á skotum sitt á hvað en Stjarnan náði frumkvæðinu í byrjun. Stólar komu svo til baka og náðu forystu 19-16 en Stjarnan átti síðustu fimm stig fyrsta fjórðungs og leiddu með tveimur stigum að honum loknum 19-21. Í öðrum leikhluta náðu gestirnir svo undirtökunum í leiknum á meðan heimamenn héldu áfram að hiksta í sóknarleiknum. Staðan 38-46 í hálfleik.


Heimamenn í Tindastól hafa oft strögglað í þriðja leikhluta leikja í Síkinu og þannig byrjaði líka þriðji leikhluti í kvöld. Gestirnir skoruðu fyrstu 8 stig fjórðungsins og leiddu með 16 stigum þegar Javon Bess setti fyrstu stig Stóla á töfluna þegar rúmar 3 mínútur voru liðnar af fjórðungnum. Töluverður hiti var kominn í leikmenn á þessum tímapunkti og það voru heimamenn í Tindastól sem högnuðust á þeim hita, byrjuðu að naga niður forskot gestanna með gríðarlegri baráttu og þegar fjórði og síðasti leikhluti hófst var munurinn aftur kominn niður í 8 stig eins og í hálfleik.  Tindastóll hélt svo baráttunni áfram inn í fjórða leikhluta og keyrðu yfir Stjörnuna í byrjun. Stólar skoruðu fyrstu átta stig fjórðungsins og þegar Taiwo Badmus jafnaði leikinn í 63-63 með tröllatroðslu ætlaði þakið að rifna af Síkinu. Stuðningsmenn Stóla voru frábærir allan leikinn og drifu liðið áfram þegar öllu virtist lokið.

Stjörnumenn áttuðu sig þó og þegar um fimm og hálf mínúta lifðu leiks voru þeir aftur komnir 5 stigum yfir 66-71, Hilmar Smári og Robert Eugene að spila vel á þessum kafla. Tindastóll gaf þó ekkert eftir og Taiwo og Siggi Þorsteins áttu næstu körfur og jöfnuðu leikinn í 74-74, allt á suðupunkti í Síkinu. Þegar rétt tæpar 3 mínútur voru eftir og staðan jöfn náði Thomas Massamba að stela boltanum af Stjörnunni en klikkaði svo illa á sniðskoti. Stjörnumenn geystust fram og Hilmar Smári náði frábæru and1 play og kom Stjörnunni 3 stigum yfir, 74-77.  Robert Eugene kom muninum svo í 5 stig með góðu skoti en Javon Bess svaraði með 2 góðum körfum og átti séns á að jafna leikinn þegar hann fékk tvö vítaskot þegar 37 sekúndur voru eftir en klikkaði á öðru skotinu. Tindastóll náði svo stoppinu sem þeir þurftu og fengu boltann í hendur þegar 17 sekúndur voru eftir. Baldur tók leikhlé og setti upp kerfi fyrir Bess sem var heitur en Stjörnumenn vörðust vel og unnu eins stigs sigur þegar lokasókn heimamanna rann út í sandinn.


Hjá Stjörnunni var Robert Eugene T. atkvæðamestur með 20 stig og 10 fráköst þrátt fyrir að hafa verið í strangri gæslu Massamba nánast allan leikinn. Hilmar Smári var líka frábær og endaði leikinn með 19 stig og setti öll sín 8 víti niður þrátt fyrir mikla pressu frá stuðningssveit Stólanna. Hjá heimamönnum var Taiwo Badmus sá sem dró vagninn þegar allt virtist búið, skoraði 9 af fyrstu 11 stigum Stólanna í fjórða leikhluta og endaði með 23 stig og 8 fráköst og var framlagshæstur allra á vellinum með 25 framlagsstig. Siggi Þorsteins bætti við 18 stigum og Bess 15 og hvor um sig reif niður 10 fráköst. Lítið skildi á milli liðanna í lokin eins og úrslitin sýna en Stjarnan komin áfram. Arnar þjálfari sagði eftir leik að Síkið væri hans uppáhalds staður að spila á á landinu og var að vonum gríðarlega ánægður með sigurinn

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -