spot_img
HomeFréttirStjarnan-KR með augum ungs Garðbæings

Stjarnan-KR með augum ungs Garðbæings

Móðir allra íþrótta, körfuboltinn, er uppspretta alls góðs! Það er dagsanna – körfuboltinn getur t.a.m. komið misáhugamiklum nemendum af stað og hvatt til góðra verka.
Karfan.is fékk í hendur og birtir hér pistil ungs Garðbæings um leik Stjörnunnar og KR sem fram fór fyrir skömmu – en pistillinn var einnig hluti ritunarverkefnis í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Ekki voru úrslitin til að gleðja hinn unga pistlahöfund, Guðjón Einar, en þetta tíndi hann úr leiknum;
 
 
KR-ingar með enn einn sigurinn í Ásgarði
 
KR-ingar heimsóttu Stjörnumenn í Ásgarði í 15. umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. KR-ingar rétt höfðu sigur gegn Snæfelli í síðustu umferð en Stjörnumenn töpuðu í höfuðstað Vesturlands.
 
Stjörnumenn byrjuðu leikinn mun betur og komust í 17-8. KR-ingar náðu samt að minnka muninn og í lok fyrsta leikhluta var staðan orðinn 24-20 fyrir Stjörnunni.
Bæði lið mættu vel til leiks í annan leikhluta og voru afar jöfn. Brynjar Þór var samt sjóðandi og negldi niður 12 stigum í leikhlutanum en skoraði bara 17 yfir allan leikinn. Leikhlutanum lauk 17-22 fyrir KR og var því staðan 37-36 fyrir Stjörnunni. Að mínu mati var dómgæslan afar slök í þessum leikhluta.
 
Þriðji leikhluti var mjög leiðinlegur og gerðist mjög lítið. Bæði lið kláruðu ekki færin sín. Atvik leikhlutans var þegar vængleikmaðurinn ungi, Dagur Kár, krossaði Martin Hermansson í rústir og setti svo lay-upið. Leikhlutanum lauk með forystu gestanna 49-54.
 
Fjórði leikhluti var þvílíkt spennandi og voru bæði lið að hitta vel en hann fór 26-24 fyrir Stjörnunni. Leikhlutinn fór upp og niður og voru bæði lið að spila ýmist vel eða illa á einhverjum tímapunkti í leikhlutanum. KR-ingar spiluðu samt ögn betur og lönduðu sigri með afar heppilegri 3-stiga körfu frá Pavel Ermolinskij í blálokin, leiknum lauk því með sigri KR 75-78.
 
Junior Hairston var besti leikmaður Stjörnumanna með 22 stig og 13 fráköst. Því má bæta við að hann kýldi engan í þessum leik! Justin Shouse átti ekki sinn besta leik, setti niður 17 stig en var með 41% skotnýtingu. Martin Hermannsson var heitur í þessum leik og var með 23 stig, 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Pavel var samt hetja KR-inga í kvöld og setti niður sigurkörfu liðsins. Pavel var með 12 stig, 11 fráköst og 2 stoðsendingar.
 
KR-ingar eru nú búnir að vinna 3 nauma sigra í röð og eru efstir í deildinni. Stjörnumenn eru ekki búnir að standa sig á þessu tímabili, eru nú með 2 töp í röð og eru í 6. sæti deildarinnar.
 
Umfjöllun: Guðjón Einar Guðrúnarson
 
(Mynd/Axel Finnur)
 
  
Fréttir
- Auglýsing -