spot_img
HomeFréttirStjarnan-Keflavík: Bein textalýsing

Stjarnan-Keflavík: Bein textalýsing

Fyrsta viðureign Stjörnunnar og Keflavíkur fer fram í Ásgarði í kvöld en liðin eru að mætast í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla. Stjarnan lauk keppni í deildinni í 4. sæti og Keflavík í 5. sæti og von á að þetta einvígi verði mögnuð skemmtun. Hér að neðan fer textalýsing frá leiknum.   
 
Jarrid Frye var stigahæstur í liði Stjörnunnar með 25 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá Keflavík var Michael Craion með 23 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
4. leikhluti 
 
LEIK LOKIÐ, lokatölur 102-86 og Stjarnan tekur 1-0 forystu!
 
102-83 Justin Shouse með þrist sem lekur niður hjá Garðbæingum og mínúta til leiksloka.
 
Garðbæingar eiga fjögur víti, fyrsti brotið á Marvin og svo tæknivilla á Magnús Þór, öll fjögur vítin rata rétta leið og staðan orðin 98-80 og 2.48mín eftir. Nokkuð ljóst að Garðbæingar eru að taka 1-0 forystu í einvíginu.
 
94-80 og 2.50mín til leiksloka, leikhlé í gangi. Hér rétt fyrir leikhlé tóku þeir Almar Guðbrandsson og Marvin Valdimarsson lítinn dans. Í hamaganginum fær Magnús Þór Gunnarsson dæmda á sig tæknivillu eftir orðastað við dómarana og er kominn með fimm villur og heldur því á tréverkið.
 
92-80 og Fannar Helgason að fá sína fimmtu villu í liði Stjörnunnar þegar 3.52mín eru hér eftir. 
 
88-78 Lewis með tvö víti fyrir Keflavík…það hefur verið töluvert flautað hér í kvöld, menn ófeimnir við að fá villur en lína dómaranna hefur líka verið nokkuð ströng.
 
88-76 og 5.30mín eftir af leiknum..
 
86-74 Mills með sóknarfrákast, villu og körfu að auki, vítið niður og Mills kominn með 18 stig.  
 
83-74 og Craion að verja glæsilega skot frá Frye Stjörnumanni.
 
Hér gerast Keflvíkingar ósáttir og heimta óíþróttamannslega villu á Jarrid Frye en fá ekki, aðeins venjuleg villa dæmd en Garðbæingar fara yfir á hinn endann og bjóða í annað Lob City party með Shouse og Mills sem endar í glæsilegri troðslu. Gestirnir úr Keflavík þurfa að herða róðurinn ætli þeir sér eitthvað úr þessum leik. Heimamenn hafa verið við stýrið frá lokum fyrsta leikhluta.
 
81-71 og mínúta liðin af fjórða leikhluta. Æsispennandi loksprettur framundan…
 
Lokaleikhlutinn er hafinn…
 
(Justin Shouse var kominn með 13 stig eftir þrjá leikhluta)
 
3. leikhluti (79-67)
 
Stjarnan vann þriðja leikhluta 25-17.
 
79-67…þriðja leikhluta lokið!
 
77-63 og Baptist kominn með fimm villur, fær dæmda á sig villu fyrir slátt, var ósáttur og lýsti yfir þeirri óánægju sinni og afleiðingin var tæknivíti og fimmta villan. Garðbæingar settu bæði vítin og staðan 79-63 og fá boltann aftur við miðlínu.
 
73-63 Baptist með Keflavíkurþrist og menn eru s.s. ekkert feimnir við að láta vaða hér fyrir utan.
 
73-60 Mills með Stjörnuþrist og munurinn 13 stig, heimamenn í Garðabæ leika nú við hvurn sinn fingur. 
 
70-58 Jovan með þrist fyrir Stjörnuna og munurinn orðinn 12 stig, Jovan kominn með 18 stig og innkoma hans af Stjörnubekknum hefur verið ansi sterk í kvöld.
 
67-58 Fannar Freyr með tvö víti fyrir Stjörnuna og 4.44mín eftir af þriðja.
 
Leikhlé í gangi, staðan 61-54 fyrir Stjörnuna og 6.26mín eftir af þriðja leikhluta.
 
Stigaskorið er komið á ís, barátta og pústrar einkenna nú leikinn og Craion í annað sinn að verja vinstri handar húkkið hjá Justin…þetta er líklega sjaldgæfara en að verða fyrir árás hvítháfs á þurru landi!
 
Fannar Helgason að fá hér sína þriðju villu í liði Stjörnunnar, hann og Mills komnir með þrjár villur sem og Valur Orri í liði Keflavíkur. 
 
Reynsluboltarnir Jovan og Magnús Þór eiga hér orðastað…vísast engar heillaóskir sem þarna fóru millum manna.
 
59-50 og Frye að skora hér yfir Baptist og Craion…stundum er eins og hann þurfi að hafa minna fyrir hlutunum en aðrir. Frye kominn í 18 stig og búinn að vera fyrirferðamikill í liði Stjörnunnar.
 
Þriðji leikhluti er hafinn og hann opnar Jovan Zdravevski með þriggja stiga körfu og staðan 57-50.
 
Þriðji leikhluti hefst innan skamms, staðan í upphafi hans er 54-50.
 
Hálfleikstölur í Þorlákshöfn eru nokkuð athyglisverðar en þar leiða KR-ingar 34-61 gegn heimamönnum í Þór!
 
Svona leit fyrri hálfleikurinn út:
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Stjarnan tveggja 65,3% – þriggja 36,3% og víti 61,5%
Keflavík tveggja 53,8% – þriggja 26,6% og víti 71,4%
 
(Rögnvaldur Hreiðarsson einn þriggja dómara leiksins)
 
2. leikhluti
 
Staðan í hálfleik er 54-50 fyrir Stjörnuna sem unnu annan leikhluta 33-20. Liðin skiptust því á að leika litla sem enga vörn í fyrri hálfleik, Stjarnan í fyrri hálfleik og fengu á sig þá 30 stig í fyrsta leikhluta og Keflavík í öðrum leikhluta þegar Stjarnan setti á þá 33 stig. Hörku síðari hálfleikur í vændum.
 
HÁLFLEIKUR
 
– 54-50 Justin með tvö Stjörnuvíti og 16 sek til hálfleiks, Keflavík í sókn…
 
– 52-48 Lob City er mætt í hús, Shouse með glæsilega sendingu á Brian Mills sem treður með tilþrifum.
 
– 50-46 Jovan með Stjörnuþrist og gestirnir í Keflavík gerast nú sekir um að gleyma sér í varnarleiknum.
 
– Stjarnan komst í 47-43 en Valur Orri minnkaði muninn í 47-46.
 
– 43-43 Frye jafnar af vítalínunni…
 
– 42-43 Jarrid Frye skorar og brotið á honum að auki. Munurinn kominn niður í eitt stig og Keflvíkingar taka leikhlé. Frye á eitt víti og getur jafnað að leikhléi loknu. Heimamenn í Stjörnunni að herða róðurinn um þessar mundir, 3.18mín til hálfleiks.
 
– 38-41 Shouse með þrist fyrir Stjörnuna og heimamenn nálgast óðfluga, eru yfir 14-11 í leikhlutanum til þessa.
 
– 35-41 Lewis með fallega hreyfingu á blokkinni sem leiddi til tveggja auðveldra stiga, Lewis kominn með 12 stig og hefur farið mikinn á báðum endum vallarins. Mýkri leikmaður í deildinni er vandfundinn!
 
– 31-39 og hér er komin af stað einhverskonar þriggjastigakeppni því Dagur Kár var enda við að smella niður einum slíkum fyrir Stjörnuna.
 
– 26-37 Billy Baptist með þrist fyrir Keflavík og vörn heimamanna er enn ekki orðin þétt og Keflvíkingar gera sér sem mest úr því.
 
– 26-32 Jovan með Stjörnuþrist sem er fagnað vel og innilega af heimafólki í stúkunni.
 
– Annar leikhluti er hafinn…
 
(Dagur Kár Jónsson í 1. leikhluta)
 
1. leikhluti (21-30)
 
– 21-30 og fyrsta leikhluta lokið. Keflvíkingar mun sterkari og skelltu 30 stigum yfir Stjörnuvörnina. Keflvíkingar að vinna frákastabaráttuna með 16 fráköst á fyrstu 10 mínútunum og sjö af þeim komu á sóknarendanum. Frye með 9 stig í liði Stjörnunnar en hjá Keflavík er Michael Craion með 10 stig. 
 
– 19-30 Craion með tvö víti og annað vildi bara niður eftir að dæmd var villa á Fannar Helgason sem er kominn með tvær slíkar og Garðbæingar svona helst til ósáttir með dómgæsluna hér í fyrsta leikhluta.
 
– 17-27 og sjöunda liðsvillan dæmd á Garðbæinga…Lewis á leið á vítalínuna fyrir Keflavík þar sem dæmd var villa á Marvin Valdimarsson fyrir nokkuð litlar sakir.
 
– 15-25 Keflvíkingar sundurspila Stjörnuvörnina og Magnús Þór er skilinn eftir einn og óvaldaður fyrir utan og auðvitað smellir hann niður þristinum! Varnarleikur Garðbæinga afar dapur hér í fyrsta leikhluta en Keflvíkingar að sama skapi beittir. 
 
– 11-18 Frye með eitt víti, heimamenn búnir að taka fjögur víti í fyrsta leikhluta, Frye á þau öll og aðeins eitt farið niður. Menn greinilega enn að hlaupa af sér hornin hér á upphafsmínútum úrslitakeppninnar.
 
– 8-17 og Mills með Stjörnutroðslu og langþráð stig hjá heimamönnum hér í fyrsta leikhluta.
 
– 6-17 og Keflvíkingar eru þegar 4 mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta komnir með 8 sóknarfráköst! Ekki sjón að sjá frákastavinnu heimamanna sem hreinlega eru skítkaldir hér á upphafsmínútunum. 
 
– 6-15 og Stjörnumenn taka leikhlé, óskabyrjun hjá gestunum.
 
– 6-13 og 5.42mín eftir af fyrsta leikhluta. Craion var enda við að verja vinstri handar húkkið hjá Justin Shouse og gott ef það er ekki að gerast í fyrsta sinn í sögunni!
 
– 6-11 Valur Orri með þrist fyrir Keflvíkinga og gestirnir láta vel í sér heyra á pöllunum. 
 
– 4-8 og Lewis setur 2 víti eftir að hafa nælt sér í sóknarfrákast og brotið var á honum. Lewis samur við sig, ólseigur í sóknarfráköstunum og gestirnir leiða í byrjun leiks.
 
– 4-4 og tvær mínútur liðnar, liðin svona í því að þreifa hvert á öðru.
 
– 0-2 Keflvíkingar gera fyrstu stig leiksins og var Valur Orri Valsson þar á ferðinni eftir sóknarfrákast. 2-2 og Jarrid Frye jafnar strax á hinum enda vallarins.
 
– Jæja, leikur hafinn og það eru heimamenn í Stjörnunni sem vinna uppkastið.
 
– Nú fer þetta allt að bresta á…
 
– Byrjunarlið Keflavíkur í kvöld er skipað svo: Valur Orri Valsson, Magnús Þór Gunnarsson, Darrell Lewis, Billy Baptist og Michael Craion.
– Byrjunarlið Stjörnunnar í kvöld er skipað svo: Justin Shouse, Kjartan Atli Kjartansson, Jarrid Frye, Brian Mills og Fannar Helgason.
 
– Fimm mínútur í leik og kominn góður gír í kofann. Leikurinn er í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld fyrir þá sem ekki komast, bein og lifandi tölfræði á www.kki.is og að sjálfsögðu munum við hér á Karfan.is fylgjast grannt með gangi mála. 
 
Dómarar kvöldsins eru: Georg Andersen, Björgvin Rúnarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.
Fréttir
- Auglýsing -