spot_img
HomeFréttirStjarnan jafnaði seríuna gegn Njarðvík

Stjarnan jafnaði seríuna gegn Njarðvík

Stjarnan og Njarðvík mættust í Ásgarði í dag í öðrum leik rimmunnar um sæti í úrvalsdeild kvenna á næsta ári. Í fyrri leik liðanna lönduðu Njarðvíkurstúlkur sigri á lokamínútum leiksins, en vinna þarf tvo leiki til að tryggja sér sæti í deild hinna bestu og mátti því búast við að Stjörnustúlkur myndu mæta dýrvitlausar til leiks í dag.

 

Njarðvíkurstúlkur hófu fyrsta leikhluta af miklum krafti og settu niður skot sín á meðan leið Stjörnustúlkna að körfunni virtist vera torfærari. Eftir 4 mínútna leik leiddi Njarðvík með 8 stigum, en þá snérust hlutirnir Stjörnunni í hag og náðu þær að minnka muninn í 2 stig. Njarðvíkurstúlkur luku síðan leikhlutanum með 5 stigum frá Ernu Hákonardóttur og 2 stigum frá Andreu Ólafsdóttur og leiddu þær með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta, 10-19. Jafnt var á með liðunum framan af í öðrum leikhluta en með góðum kafla um miðbik hans náðu Stjörnustúlkur að saxa á forskot Njarðvíkur og fór svo að Njarðvík leiddi með 4 stigum í hálfleik, 26-30.

 

Í síðari hálfleik mættu bæði lið ákveðin til leiks og skilaði það sér í öflugum varnarleik. Þrátt fyrir nokkrar góðar tilraunir þá duttu skot Njarðvíkur ekki niður í upphafi leikhlutans og var það ekki fyrr en þrjár mínútur voru liðnar af honum að Erna Hákonardóttir braut ísinn fyrir Njarðvík með því að setja niður tvö vítaskot. Stjarnan nýtti sér þetta og náði forystunni með tveimur góðum körfum frá Báru Fanney Hálfdánardóttur og þriggja stiga körfu frá Heiðrúnu Ösp Hauksdóttur í upphafi leikhlutans. Stjörnustúlkur héldu forystunni það sem eftir lifði leiks og lönduðu að lokum 6 stiga sigri, 55-49.

 

Atkvæðamest í liði Stjörnunnar var Bryndís Hanna Hreinsdóttir með 21 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar og í liði Njarðvíkur var Erna Hákonardóttir með 17 stig og 7 fráköst. Þá reif Eva María Emilsdóttir niður 13 fráköst fyrir Stjörnuna auk þess að skora 9 stig og Andrea Björt Ólafsdóttir tók 12 fráköst fyrir Njarðvík auk þess að gefa 6 stoðsendingar og skora 2 stig.

 

Með sigrinum í dag náði Stjarnan að tryggja sér oddaleik í rimmunni um úrvalsdeildarsæti og mun hann fara fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík þriðjudaginn 14. apríl kl. 19:15.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn: Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -