spot_img
HomeFréttirStjarnan jafnaði: Rosaleg sería í gangi

Stjarnan jafnaði: Rosaleg sería í gangi

Garðbæingar hafa jafnað 1-1 gegn Njarðvík í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla. Sveiflukenndur leikur í Ásgarði þar sem Jeremy Atkinson vó þungt fyrir heimamenn í Garðabæ. Tveir svakalegir leikir að baki millum þessara liða úr 4. og 5. sæti deildarinnar og nokkuð ljóst að þetta einvígi verður bara flottara með hverjum leiknum. Lokatölur í Ásgarði í kvöld voru 89-86 Stjörnuna í vil þar sem Jeremy Atkinson varði glæsilega lokaskot Njarðvíkinga til að koma leiknum í framlengingu.
 
 
Þetta er vonandi aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal og því ættu áhugasamir að fara að huga að því að tryggja sér miða í Ljónagryfjuna á þriðja leikinn.
 
Njarðvíkingar fóru vel af stað í Ásgarði og gerðu sex fyrstu stig leiksins áður en heimamenn létu á sér kræla. Garðbæingar lágu ekki lengi á dreng sínum og komust yfir 18-16 þar sem Atkinson var Njarðvíkingum erfiður en Logi Gunnarsson sömuleiðis beittur í liði gestanna.
 
Tómas Þórður Hilmarsson fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu í liði Stjörnunnar sem meltist illa hjá heimamönnum og mótmæltu þessum dómi hástöfum. Ragnar Helgi Friðriksson kom svo inn í Njarðvíkurliðið og skellti niður þrist 23-26 þegar nokkrar sekúndur lifðu leikhlutans og reyndust það lokastigin í fyrsta hluta.
 
Annar leikhluti var opnaður á stóru stráka-svægi þegar Snorri Hrafnkelsson við endalínuna hnoðaði í mjúkan snúning og skaut yfir Tómas Þórð og kom Njarðvíkingum í 23-28. Annar leikhluti var allur fastari fyrir en sá fyrri, heimamenn settu lítið sem ekkert fyrir utan þriggja stiga línuna, gestunum gekk þar betur.
 
Ólafur Helgi Jónsson splæsti í tvo þrista fyrir Njarðvíkinga með skömmu millibili og kom grænum í 29-38 en Atkinson hélt Stjörnunni við efnið og minnkaði muninn í 38-40 þegar hann skoraði og fékk villu að auki. Þarna létu Njarðvíkingar í sér heyra, full mikill meðbyr þarna sem Atkinson fékk og grænir heimtuðu ruðning. Þetta kom við kauninn í Stefan Bonneau sem henti niður þrist strax í næstu sókn en leikar stóðu svo 40-43 Njarðvík í vil í hálfleik.
 
Jeremy Atkinson var með 19 stig og 5 fráköst í hálfleik hjá Stjörnunni en Logi Gunnarsson var með 12 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar hjá Njarðvíkingum.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik
Stjarnan: 2ja stiga 59,1% – 3ja stiga 8,3% og víti 100% (11-11)
Njarðvík: 2ja stiga 50% – 3ja stiga 27,8% og víti 100% (6-6)
 
Í þriðja leikhluta komu Garðbæingar vígreifir út á parketið og settu saman 12-3 áhlaup. Dagur Kár var enn að basla Stjörnumegin, tuðran vildi einfaldlega ekki niður og Dagur hengdi smá haus en átti eftir að rétta úr kútnum síðar í leiknum. Njarðvíkingar tóku á rás og úr 12-3 spretti Stjörnumanna varð 8-19 snúningur hjá Njarðvíkingum sem leiddu því 60-65 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Snorri Hrafnkels opnaði fjórða og kom Njarðvík í 60-67 en kappinn tók vart feilspor í kvöld og lauk leik með 12 stig og 8 fráköst. Jeremy og Ólafur Helgi fóru í hár saman og sá fyrrnefndi fékk að kæla sig aðeins á bekknum, mikið og gott skap þar á ferðinni en Hrafn ákvað að tempra sinn mann lítið eitt.
 
Dagur Kár minnkaði muninn í 69-71 með þrist og færðist þá smá hýra yfir kappann. Jeremy mætti aftur inn og í gang fóru ærslafullar mínútur, Atkinson jafnaði 73-73, Logi kom Njarðvík í 73-76 með þrist og Justin svaraði í sömu mynt, 76-76. Ef þetta er ekki úrslitakeppnin með öllum sínum látum og fjöri þá skulum við éta hatt okkar, frábær fjórði leikhluti í gangi á þessum kafla og sérsniðinn fyrir áhorfendur.
 
Kína-Jón Orri Kristjánsson minnti á sig þegar hann kom Stjörnunni í 85-81 með troðslu þegar 1.15 mín. voru til leiksloka. Allt í járnum, Jón Orri skömmu síðar búinn að misnota þrjú víti en Justin kom Stjörnunni í 87-83 af vítalínunni og inn kemur Blikabomban Ágúst Orrason með þrist og minnkar muninn í 87-86. Eins og gefur að skilja var brotið á Stjörnunni, bæði vítin niður og staðan 89-86 og ekkert leikhlé í boði. Njarðvíkingar fóru í sókn, Bonneau leysti boltann á Maciej Baginski sem fór upp í þrist en aðvífandi kom Lykilmaður leiksins, Jeremy Atkinson, og varði skotið og Stjarnan fagnaði sigri og jafnaði einvígið 1-1. Lokatölur 89-86 Stjörnuna í vil í hörkuleik.
 
Jeremy Atkinson var atkvæðamestur í liði Garðbæinga með 23 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Logi Gunnarsson með 27 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins

 
Lykilmaður-leiksins: Jeremy Atkinson
 
*Nokkrir punktar um leikinn:
*Njarðvíkingar höfðu unnið sigur í stúkunni áður en leikur hófst! Ljóst að Silfurskeiðin hefur takmarkaðan áhuga á 8-liða úrslitum.
*Stjarnan var 1-12 í þristum í hálfleik en Njarðvíkingar 5-18.
*Stjarnan var 9-2 á heimavelli fyrir leik kvöldsins (deildarkeppni).
* Njarðvík var 6-5 á útivelli fyrir leik kvöldsins (deildarkeppni).
 
Umfjöllun – Jón Björn
 
  
Fréttir
- Auglýsing -