spot_img
HomeFréttirStjarnan Íslandsmeistari í 10. flokki karla

Stjarnan Íslandsmeistari í 10. flokki karla

 
Stjarnan er Íslandsmeistari í 10. flokki karla eftir 55-65 sigur á KR í úrslitaviðureign liðanna í Laugardalshöll. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Garðbæingar reyndust sterkari á lokasprettinum og var Dagur Kár Jónsson valinn besti maður leiksins með 25 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar.
Garðbæingar urðu fyrri til þess að láta að sér kveða í leiknum, komust í 2-5 en KR-ingar voru fljótir að jafna sig og í garð gekk jafn og skemmtilegur fyrsti leikhluti. Stjarnan jafnaði 11-11 en Oddur Rúnar Kristjánsson átti lokaorð leikhlutans með dreifbýlisþrist þegar 20 sekúndur voru eftir og KR-ingar leiddu 16-15 að fyrstu tíu mínútunum loknum. Hugi Hólm Guðbjörnsson fann sig vel í upphafi leiks hjá KR og var kominn með 8 stig eftir fyrsta leikhluta.
 
Stjörnumenn voru líflegir í upphafi annars leikhluta, komust í 19-25 þrátt fyrir að ekkert gengi hjá þeim fyrir utan þriggja stiga línuna. Dagur Kár Jónsson lenti þó fyrsta Stjörnuþristinum, þeim fyrsta í 11 tilraunum, þegar skammt var til hálfleiks og kom Garðbæingum í 24-30 en KR-ingar áttu síðustu stig fyrri hálfleik og staðan 26-30 í leikhléi. Tómas Þórður Hilmarsson var KR-ingum erfiður í fyrri hálfleik með 12 stig og 10 fráköst en Hugi Hólm Guðbjörnsson var öllu rólegri í öðrum leikhluta en þeim fyrsta og var með 8 stig og 5 fráköst í hálfleik hjá KR.
 
Varnarleikur vesturbæinga var ekki nægilega grimmur í dag, eftir tæplega 19 mínútna leik höfðu KR-ingar aðeins fengið dæmdar á sig þrjár villur en munurinn var þó ekki nema þrjú stig, 32-35, Stjörnuna í vil snemma í síðari hálfleik.
 
Karfa var dæmd af KR í lokasókn þriðja leikhluta þar sem leiktíminn fór of seint af stað og Garðbæingar leiddu því 38-46 fyrir fjórða og síðsta leikhluta en Stjarnan vann þriðja leikhluta 16-12.
 
Dagur Kár Jónsson var sterkur í Stjörnuliðinu í síðari hálfleik og þegar seig á fjórða leikhluta tóku Stjörnumenn framúr og uppskáru að lokum verðskuldaðan 55-65 sigur en Box-1 vörn Stjörnunnar gerði KR lífið leitt í dag og Garðbæingar að vonum kátir í leikslok með þennan sigur en þessi árgangur Stjörnunnar á heima hjá sér silfurverðlaun úr Íslandsmóti síðustu fimm árin. Nú eru gullverðlaunin komin í hús og ekki laust við að leikmenn og aðstandendur þeirra í Laugardalshöll hefðu verið með kátasta móti eftir leik.
 
Dagur Kár Jónsson gerði 25 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar í liði Stjörnunnar og Tómas Þórður Hilmarsson bætti við 22 stigum og 20 fráköstum ásamt 3 vörðum skotum. Hjá KR var Þorsteinn Eyfjörð Þórarinsson með 18 stig og 6 fráköst og Hugi Hólm Guðbjörnsson gerði 16 stig.
 
Eins og flestum er kunnugt mætast þessi sömu lið í kvöld en þá í úrslitum Iceland Express deildar karla og ljóst að það vantar ekki spennuna milli þessara tveggja klúbba í augnablikinu.
 
,,Við mættum hörmulega inn í bikarúrslitaleikinn fyrr á tímabilinu en í dag vorum við tilbúnir frá upphafi og ætluðum okkur sigurinn allan tímann,“ sagði Dagur Kár Jónsson leikstjórnandi Stjörnunnar og besti maður úrslitaleiksins í samtali við Karfan.is eftir leik. Stjarnan varð í 2. sæti eftir bikarúrslitin í 10. flokki en nú kom gullið í hús.
 
,,Þú vinnur leiki á vörninni og við lékum brjálaða vörn allan tímann, allir á fullu og allir komu með sitt inn í þennan leik svo þetta var bara liðssigur,“ sagði Dagur en leið Stjörnunnar að gullinu hefur verið þyrnum stráð.
 
,,Við höfum verið í þessum úrslitaleikjum í einhver fimm ár og alltaf lent í 2. sæti og því þungu fargi af okkur létt núna. Það komu allir með eitthvað inn í þennan leik og þó ég hafi verið valinn besti maður leiksins þá þyrfti að skipta þeim verðlaunum niður í 12 búta, eitthvað handa öllum.“

Myndasafn úr leiknum

 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski – [email protected]
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -