spot_img
HomeFréttirStjarnan í úrvalsdeild eftir stórsigur

Stjarnan í úrvalsdeild eftir stórsigur

17:35 

{mosimage}

 

 

Stjarnan sigraði Val sannfærandi 100-84 í oddaleik liðanna í gærkvöld um það hvort liðið fylgdi Þór frá Akureyri í úrvalsdeild að ári.

 

Stjörnumenn byrjuðu leikinn mun betur og komust fljótlega í 11-3 með frábærri vörn og mikilli baráttu. Valsmenn náðu hinsvegar að komast inn í leikinn undir lok fjórðungsins en Stjarnan hafði yfirhöndina. 22-16 eftir 10 mínútur.

 

Liðin voru mjög jöfn framan af öðrum leikhluta. Góð vörn var spiluð á báða bóga og skipst á stigum en um miðjan leikhlutann seig Stjarnan fram úr og komst í þægilega forystu. En Valsarar voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og með nokkrum þristum var forskot Stjörnunnar komið í 3 stig, 41-38 og þannig var staðan í hálfleik.

 

Bæði lið mættu dýrvitlaus til leiks í 3. leikhluta.  Stjörnumenn skoruðu meira til að byrja með en náðu ekki að hrista baráttuglaða Valsara af sér því Zach Ingles fékk fjölmörg vítaskot sem hann nýtti öll.  Mikill hiti var í mönnum og Valsmenn lentu í villuvandræðum en Ragnar Steinsson fékk dæmda á sig sóknarvillu, hans 4. villa í leiknum.  Í kjölfarið fengu Valsmenn dæmda á sig tæknivillu og virtist það slökkva alveg í baráttueldinum þeirra megin, en kyndlaði mikið bál í brjóstum Stjörnumanna því þeir hreinlega völtuðu yfir Valsara og komust á tímabili í 22 stiga forskot.  Þar fór fremstur í flokki Sigurjón Lárusson en hann átti frábæran leik og skoraði alls 30 stig.  Staðan í lok 3. leikhluta var 68-53 Stjörnunni í vil.

 

Valur var kominn í þó nokkur villuvandræði fyrir 4. leikhluta og í byrjun hans fór Guðjón Hauksson út af með sína 5. villu á bakinu en Guðjón barðist mjög vel allan leikinn og tók þó nokkur fráköst.  Alls fóru fjórir Valsarar útaf með 5 villur í leikhlutanum, þar á meðal Zach Ingles en Zach skaut boltanum ekki vel í síðustu tveim leikjum seríunnar.  Stjörnumenn settu hins vegar fulla ferð áfram og dyggilega studdir af fjölmörgum Garðbæingum sem létu sig ekki vanta í Kennaraháskólann,  unnu þeir stórsigur 100-84 og fögnuðu gríðarlega í leikslok.

 

Atkvæða mestir hjá Stjörnunni voru Sigurjón Lárusson með 30 stig en Sigurjón spilaði frábærlega í úrslitaseríunni, og Ben Bellucci með 20 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar. 

 

Það verður því Stjarnan úr Garðabæ sem mun fylgja Þór frá Akureyri upp í Iceland-Express deildina en Valsmenn sitja heima með sárt ennið.  Síðast þegar Stjarnan lék í úrvalsdeild var veturinn 2001-2002.  Þá unnu þeir ekki einn einasta leik.  Hvað gerist í þetta sinn?

 

Texti: Elías Guðmundsson

Mynd: www.vikurfrettir.is – Valur Jónatansson

Fréttir
- Auglýsing -