spot_img
HomeFréttirStjarnan í undanúrslit í fyrsta sinn: Bláir beittari í blálokin

Stjarnan í undanúrslit í fyrsta sinn: Bláir beittari í blálokin

 
Nýr kafli hefur verið ritaður í körfuknattleikssögu Garðabæjar en í kvöld komust Stjörnumenn í fyrsta sinn í sögu félagsins í undanúrslit úrvalsdeildar karla. Stjarnan heimsótti Grindavík í Röstina í oddaviðureign liðanna um sæti í undanúrslitum. Garðbæingar reyndust sterkari á lokasprettinum en Grindvíkingar fengu þó sín færi á sigrinum, lokatölur 66-69 Stjörnunni í vil í spennuþrungnum leik.
Garðbæingar léku í kvöld án Marvins Valdimarssonar sem var heima veikur en Þorleifur Ólafsson var að nýju kominn í búning hjá Grindvíkingum en Þorleifur hefur verið að glíma við þrálát meiðsli síðustu ár.
 
Mladen Soskic og Páll Axel Vilbergsson skelltu niður þristum í upphafi leiks og gulir í stúkunni létu vel í sér heyra. Garðbæingar voru þó fljótir að jafna sig og komust yfir 12-14 eftir þrist frá Fannari Helgasyni.
 
Upphafsmínúturnar voru líflegar þó varnirnar væru örugglega ekki að virka eins og þjálfarar liðanna höfðu eflaust lagt upp með fyrir leikinn. Grindavík leiddi 24-19 eftir fyrsta leikhluta þar sem Páll Axel var með 8 stig hjá gulum og þeir Renato Lindmets og Fannar Helgason báðir með 6 stig hjá Stjörnunni.
 
Í stöðunni 29-24 Grindavík í vil fóru Garðbæingar á flug, læstu í vörninni og héldu heimamönnum í 7 stigum á 6 mínútum. Áhlaup gestanna taldi 9 stig og bláir leiddu 34-39 í hálfleik. Renato og Justin Shouse báðir með 10 stig hjá Garðbæingum í leikhléi en Ólafur Ólafsson og Páll Axel báðir með 8 stig hjá Grindavík.
 
Justin og Jovan settu tvo Stjörnuþrista í upphafi síðari hálfleiks og um miðbik leikhlutans bætti Kjartan Atli Kjartansson við örðum og staðan 44-56 fyrir Stjörnuna þegar heimamönnum var nóg boðið. Nú var komið að gulum sem af harðfylgi minnkuðu muninn í 55-56 með flautuþrist frá Mladen Soskic og þannig stóðu leikar fyrir fjórða leikhluta sem átti eftir að verða afar hjartastyrkjandi.
 
Björn Steinar Brynjólfsson viðhélt góðu gengi Grindvíkinga í upphafi fjórða leikhluta er hann jafnaði leikinn 58-58 með þriggja stiga körfu. Strax eftir þennan þrist frá Birni féll allt í lás, Helgi Jónas notaði Nick Bradford ekkert í fjórða leikhluta og kappinn vart skugginn af sjálfum sér í kvöld. Varnir liðanna tóku við keflinu og hver einasti sóknarmaður meðhöndlaði boltann eins og brennheita kartöflu.
 
Níu stig voru alls skoruð á fyrstu fimm mínútum fjórða leikhluta en það gaf á bátinn hjá Stjörnunni þegar Kjartan Atli Kjartansson smellti niður risavöxnum þrist og staðan 64-67 fyrir Stjörnuna þegar 1.04 mínútur voru til leiksloka.

 
Í stöðunni 64-67 fékk Ólafur Ólafsson körfu góða og villu að auki, hann brenndi af vítinu og staðan því 66-67 fyrir Stjörnuna. Garðbæingar gerðust brotlegir eftir misheppnaða skottilraun og Ólafur Ólafsson hélt aftur á vítalínuna fyrir heimamenn og 29 sekúndur til leiksloka. Ólafur brenndi af báðum vítunum og Grindavík braut síðan á Justin Shouse þegar 14 sekúndur voru eftir. Shouse var öryggið uppmálað á línunni, setti bæði vítin og staðan 66-69. Grindavík fékk þriggja stiga skot í hægra horninu sem geigaði en gulir náðu frákastinu þegar 1,7 sekúnda var til leiksloka og Garðbæingar brutu á heimamönnum. Þorleifur Ólafsson fór þá á línuna, brenndi af fyrra vítinu og þar af leiðandi brenndi hann einnig viljandi af því síðara en gestirnir náðu frákastinu og tíminn rann út og við það braust út gríðarlegur fögnuður blárra í Röstinni. Stjarnan í fyrsta sinn í sögu félagsins í undanúrslit úrvalsdeildar!
 
Viðureign kvöldsins í Röstinni var frábær skemmtun og taugarnar vel þandar en niðurstaðan er sú að Grindvíkingar eru komnir í sumarfrí en Stjarnan mætir Íslandsmeisturum Snæfells í undanúrslitum.
 
 
Grindavík: Mladen Soskic 16/4 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 13/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 10/7 fráköst, Ryan Pettinella 9/14 fráköst, Þorleifur Ólafsson 9, Ómar Örn Sævarsson 4/9 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Nick Bradford 2, Ármann Vilbergsson 0, Egill Birgisson 0, Helgi Björn Einarsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0.
 
Stjarnan: Justin Shouse 21/5 fráköst/8 stoðsendingar, Renato Lindmets 18/8 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 11/4 fráköst, Fannar Freyr Helgason 8, Jovan Zdravevski 8/8 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 3/6 fráköst, Christopher Sófus Cannon 0, Guðjón Lárusson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Ólafur Aron Ingvason 0, Dagur Kár Jónsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson
 
Áhorfendur: 621
 
Byrjunarliðin:
 
Grindavík: Mladen Soskic, Nick Bradford, Ólafur Ólafsson, Páll Axel Vilbergsson og Ryan Pettinella.
 
Stjarnan: Justin Shouse, Daníel Guðmundsson, Jovan Zdravevski, Renato Lindmets og Fannar Freyr Helgason.
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski [email protected]  
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson[email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -