spot_img
HomeFréttirStjarnan hafði betur gegn Þór í framlengdum leik

Stjarnan hafði betur gegn Þór í framlengdum leik

Segja má að það hafi örlað á sviðskrekk hjá Þór í byrjun leiks gegn Stjörnunni í kvöld og það nýttu gestirnir sér til hins ýtrasta. Þegar fyrsti leikhluti var rétt um hálfnaður var forskot gestanna orðið 15 stig 8-23. Í kjölfarið fylgdi ágætur kafli Þórs þar sem þeir skoruðu 8-0 og  minnkuðu muninn í sjö stig 16-23.  Eftir þennan kipp hrukku gestirnir í gang aftur og skoruðu 5-0 það sem eftir lifði leikhlutans og höfðu tólf stiga forskot þegar annar leikhlutinn hófst 16-28.

 

Þórsarar komu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og skoruðu fyrstu sjö stigin í leikhlutanum og eftir þriggja mínútna leik var munurinn á liðunum fimm stig 23-28. Það sem eftir lifði annars leikhluta leiddu gestirnir leikinn með 5-8 stigum. Þegar um hálf mínúta lifði af öðrum leikhluta var staðan 40-44. Stjörnumenn áttu síðast orðið í fyrri hálfleik en þá setti Magnús Bjarki niður þrist og breytti stöðunni í 40-47 og þannig var staðan í hálfleik.
Jafnræði var með liðunum framan af þriðja leikhluta  og munurinn hélst til að byrja með á bilinu 5-7 stig gestunum í vil en þegar um tvær mínútur voru eftir að leikhlutanum höfðu Þórsarar minnkað muninn í eitt stig 58-59. En þá kom góður kafli gestanna sem skoruðu 2-8 og þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst var munurinn á liðunum sjö stig 60-67.

 

Stjörnumenn byrjuðu fjórða leikhlutann vel og virtust ætla hrista Þórsara af sér og höfðu náð tólf stiga forskoti 60-72 eftir um tveggja og hálfs mínútna leik. En Þórsarar neituðu að gefast  upp og tóku að saxa á forskot gestanna og þegar fjórar mínútur lifðu leiks munaði aðeins þremur stigum á liðunum 70-73. Áhorfendur tóku vel við sér og spennan á lokakaflanum var gríðarleg, allt gat gerst.

 

Þegar 3:50 voru eftir höfðu gestirnir sex stiga forskot 73-79 og spennan stig magnaðist. Þegar 1:35 voru eftir setti Darrell Lewis niður þrist og minnkaði muninn í tvö stig 77-79. Marvin Valdimarsson og Shouse klikka í kjölfarið á þriggja stiga skotum. Darrell Lewis setti svo niður tvö víti þegar 35 sekúndur voru eftir og jafnaði leikinn 79-79 og hitastigið í höllinni nálægt suðumarki. Þegar 15 sekúndur lifðu leiks náði Danero frákasti eftir að skot Hlyns Bærings geigaði og Þórsarar gátu tekið stigin tvö sem í boði var. En skot Jalen Riley í blálokin geigaði og framlenging staðreynd.

 

Stjörnumenn höfðu öll völd á vellinum í framlengingunni og skoruðu tólf stig gegn þremur Þórs höfðu þegar upp var staðið níu stiga sigur 82-91.

 

Sigur Stjörnunnar var sanngjarn en miðað við hvernig leikurinn þróaðist var níu stiga munur full mikill.
Segja má að slök byrjun Þórs í fyrsta leikhluta hafi orði liðinu dýrkeypt. Það tekur á að þurfa elta jafn sterkt lið og Stjörnuna sem hefur slíka breidd og jafn leikreynda liðsmenn og raunin er á.

 

Þórsliðinu óx ásmegin eftir því sem á leikinn leið og ljóst að þeir verða erfiðir heima að sækja í vetur.
Stigahæstir í liði Þórs voru þeir Jalen Riley með 27 stig og Darrell Lewis með 24 stig og 10 fráköst. Danero var með 9 stig og 9 fráköst, Ingvi Rafn og Þröstur Leó með 8 stig hvor, Ragnar Helgi 4 stig og 4 stoðsendingar og þá var Tryggvi Snær með 2 stig og 8 fráköst.

 

Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 20 stig, Marvin Valdimarsson 18, Hlynur Bæringsson 15 og Arnþór Freyr 14.

Til gamans má geta þess að Stjörnumenn settu niður 14 þrista í 28 tilraunum og þar af 11 í fyrri hálfleik. Þórsarar skoruðu úr 10 í 18 tilraunum.

 

Myndir úr leiknum má sjá hér að neðan:

 

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Páll Jóhannesson (ÞórSport)

Fréttir
- Auglýsing -