Það var nokkuð ljóst frá upphafsmínútum leiks í Garðabæ í kvöld að aðeins annað liðið hafði eitthvað til þess að berjast fyrir. Stjarnan mætti gríðarlega einbeittir til leiks og náðu strax afgerandi forskoti. Það forskot fór aldrei undir 15 stig í seinni hálfleik og því verður að segjast eins og er að sigur Stjörnunnar var aldrei í hættu.
Eftir leikinn biðu Stjörnumenn svo spenntir eftir úrslitum úr Hólminum til þess að vita hvort þeir hefðu fengið heimaleikjaréttinn eða ekki. Stigahæstur í liði heimamanna var Jovan Zdravevski með 19 stig en næstur voru Justin Shouse með 17 stig. Hjá Blikum var Jeremy Caldwell stigahæstur með 16 stig en næstir voru Jonathan Schmidt með 15 stig og Daníel Guðmundsson með 13 stig.
Stjarnan var ekki lengi að stimpla sig inn og strax eftir eina og hálfa mínúta af leiktíma tók Sævaldur Bjarnason leikhlé fyrir Breiðablik þar sem munurinn var kominn upp í 8 stig, 10-2. Breiðablik var óheppið í upphafi leiks og voru aðeins komnir með 4 stig þegar fjórar mínútur voru liðnar. Það var hins vegar ekki vegna þess að Stjarnan var að spila svo góða vörn heldur voru þeir einfaldlega ekki að nýta skotin sín. Stjarnan notfærði sér þetta og höfðu yfir 16-4 þegar fyrsti leikhlut var hálfnaður. Blikar voru að skjóta svakalega illa og voru 0 af 5 í þriggja stiga skotum og aðeins með 25% nýtingu í tveggja stiga skotum þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður. Það munaði mestu á liðunum þegar um það bil þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum, 21-5, en blikar náðu að rétta sinn hlut örlítið og minnkuðu muninn niður í 11 stig á stuttum tíma. Stjarnan hleypti þeim ekki nær en svo og juku forskotið aftur. Þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta hafði Stjarnan náð muninum aftur upp í 16 stig, 30-14.
Breiðablik náði aftur áhlaupi í upphafi annars leikhluta og þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum tók Teitur Örlygsson leikhlé, 33-21. Aðeins einn byrjunarliðsmaður spilaði fyrir bæði lið meirihluta annars leikhluta. Breiðablik tókst á þeim tíma að halda muninum í um það bil 12 stigum þangað til um það bil fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar Ólafur Sigurðsson setti niður 5 stig á stuttu kafla, 44-29. Stjarnan bætti hægt og rólega aftur í og hafði 21 stigs forskot þegar ein míntúa var eftir af fyrri hálfleik, 53-31. Stjarnan fékk seinasta tækifæri í fyrri hálfleik en tókst ekki að nýta það og því höfðu heimamenn 20 stiga forskot í hálfleik, 53-33.
Stigahæstur heimamanna í hálfleik var Justin Shouse með 15 stig en næstir voru Jovan Zdravevski og Djordje Pantelic með 8 stig hvor. Hjá Breiðablik var Jeremy Caldwell stigahæstur með 6 stig og 6 fráköst en næstir voru heilir 5 menn jafnir með 5 stig hver.
Þriðji leikhluti byrjaði virkilega hratt og bæði lið skoruðu grimmt. Þegar þrjár mínútur voru liðnar höfðu heimamenn 19 stiga forskot, 59-40. Blikum gekk illa að stoppa hraðan sóknarleik heimamanna og fengu því oft á sig auðveld hraðaupphlaupsstig. Stjarnan bætti hægt og rólega við forskotið og þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta var munurinn kominn upp í 26 stig, 84-58. Stjanarna var að setja skotin fyrir utan af gríðarlegri ákveðni og voru komnir með 13 þrista ofaní þegar þriðja leikhluta lauk, 89-63.
Svæðisvörn gestana sem þeir höfðu verið að fínpússa allan leikinn virtist vera að virka ágætlega á fyrstu mínútunum og minnkuðu muninn niður í 21 stig á fyrstu þremur mínútunum. Þannig stóðu leikar næstu mínúturnar og þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan 95-74. Stjarnan hélt áfram að setja niður þriggja stiga skotin og á einni mínútu tókst þeim að auka muninn upp í 28 stig, 102-74. Lokamínúturnar voru því aðeins formsatriði fyrir heimamenn, minni spámenn fengu að spreyta sig og leiknum lauk með 23 stiga sigri heimamanna, 109-86.
Umfjöllun: Gísli Ólafsson



