Stjarnan leikur í Domino´s-deild kvenna á næstu leiktíð í fyrsta sinn í sögu félagsins. Þetta fékkst staðfest í dag eftir afgreiðslu aga- og úrskurðarnefndar KKÍ í kærumáli Njarðvíkinga á hendur Stjörnunni.
Njarðvíkingar gerðu þá kröfu að úrslit í oddaleik Njarðvíkur og Stjörnunnar í 1. deild kvenna þann 14. apríl síðastliðinn yrðu dæmd ógild og Njarðvíkingum dæmdur sigur 20-0. Njarðvíkingar gerðu fleiri kröfur en í úrskurðarorðum segir að aðalkröfu Njarðvíkinga sé hafnað sem og varakröfu þeirra um að úrslit oddaleiksins verði dæmd ógild og leikurinn leikinn að nýju.
Oddaleikurinn fór 54-57 Stjörnuna í vil og því stendur sigur Garðbæinga í einvíginu 2-1 sem þýðir að félagið leikur í úrvalsdeild á næsta tímabili.
Tengt efni: Njarðvík kærir oddaleikinn við Stjörnuna



