spot_img
HomeFréttirStjarnan Bikarmeistari karla 2015 !!

Stjarnan Bikarmeistari karla 2015 !!

 

Stjarnan endurtók leikinn og skiluðu ótrúlegum bikarmeistaratitli í hús með tveggja stiga háspennu sigri á KR í laugardalshöllinni í dag.  Stjarnan var undir nánast allan leikinn og komust ekki yfir fyrr en Jermey Atkinson setti niður tvö víti þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum.  Fögnuðurinn í leikslok var í takt við ótrúlegan leik og troðfullur Stjörnuhluti stúkunnar gjörsamlega trylltist.  Justin Shouse leiddi þannig Stjörnuna til þriðja bikarmeistaratitils Stjörnunnar og það aftur á móti KR eins og frægur leikur árið 2009.  Lykillmaður leiksins var útnefndur Justin Shouse en hann skoraði 19 stig og gaf 10 stoðsendingar í leiknum.  

 

Byrjunarlið KR í leiknum var skipað Pavel Ermolinskij, Darra Hilmarssyni, Helga Magnússyni, Brynjari Þór Björnssyni og Michael Craion.  Byrjunarlið Stjörnunnar var Dagur Kár Jónsson, Justin Shouse, Ágúst Angantýsson, Marvin Valdimarsson og Jeremy Atkinson.  

 

Það var Stjarnan sem tók af skarið í upphafi leiks og náði 7-3 forskoti eftir 2 mínútur af leik með gríðarlega góðum stuðningi sinna manna úr stúkunni.  Brynjar Þór Björnsson var þó ekki á því að leyfa Stjörnunni að stinga af og setti sín fyrstu stig fyrir utan þriggja stiga línuna.  Michael Craoin fylgdi því svo eftir með flottu hraðaupphlaupi og KR var komið yfir í stöðunni 7-8.  Hrafn Kristjánsson tók svo leikhlé fyrir Stjörnuna stuttu seinna þegar forskot KR var komið í 5 stig og áhlaup KR-inga komið í 9 stig í röð, 7-12.  Stjarnan náði svo loks að svara þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður en þá fékk Jeremy Atkinsson glæsilega sendingu frá Justin Shouse sem hann skilaði ofaní.  Þetta kveikti all hressilega í Stjörnunni sem setti 9 stig í röð áður en KR tók leikhlé, 16-13.  Marvin Valdimarsson áttu næstu stig fyrir Stjörnuna áður en Brynjar náði að svara fyrir KR með þrist, 18-16, og tvær mínútur eftir af fyrsta leikhluta.  Finnur Magnússon mætti með látum í lokamínútu leikhlutans og setti fjögur stig í röð fyrir KR sem kom KR yfir, 20-21.  Það voru svo KR sem leiddu eftir fyrsta leikhluta, 22-23.  

 

Ágúst Angantýsson átti fyrstu stig annars leikhluta með nokkuð óvæntum þrist, alveg galopinn og Dagur Kár bætti tveimur stigum við úr hraðaupphlaupi og Stjarnan var komin 4 stigum yfir, 27-23.  Leikurinn var hnífjafn næstu mínútur og liðin skiptust á stigum og misgáfulegum skotum.  Þegar annar leikhluti var hálfnaður var það KR sem leiddi með tveimur, 31-33.  KR tók smám saman forskotið og þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik setti Darri Hilmarsson stóran þrist af baseline og kom KR í sjö stiga forskot, 35-42.  Hrafn Kristjánsson tók þá leikhlé fyrir Stjörnuna sem höfðu verið að láta dómarana pirra sig og þurftu greinilega smá kælingu.  Helgi Magnússon setti annan stóran þrist fyrir KR þegar um 40 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik og Brynjar Þór setti þann næsta rétt áður en flautan gall.  Forskot KR í hálfleik var því allt í einu komið í 12 stig og fögnuðu KR-ingar vel þegar gengið var til klefa, 38-50.  

 

Stigahæstur í lIði KR var Brynjar Þór Björnsson með 16 stig en næstu menn voru Michael Craion með 13 stig og Helgi Már og Darri Hilmars með 7 stig hvor.  Í liði Stjörnunnar var Jeremy Atkinsson stigahæstur með 13 stig en næstu menn voru Marvin Valdimarsson emð 9 stig og Justin Shouse og Dagur Kár með 6 stig hvor.  

 

Pavel Ermolinskij byrjaði seinni hálfleik með sínum fyrstu stigum í leiknum og komu þau fyrir utan þriggja stiga línuna.  Dagur Kár svaraði um hæl hinu megin og munaði ennþá 12 stigum á liðunum, 41-53.  Stjarnan gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess að minnka muninn og settu Jeremy Atkinson og Justin Shouse niður tvo þrista á stuttu millibili en það dugði skammt því KR virtist alltaf hafa svör.  Þegar þriðji leikhluti var hins vegar að hálfnaður náði Stjarnan að minnka forskotið niður í 6 stig og FInnur Freyr tók leikhlé fyrir KR, 54-60.  Tómas Þórður Hilmarsson setti niður 2 stig eftir glæsilega sendingu frá Justin Shouse með þrjár og hálfa eftir af leikhlutanum og Jeremy Atkinson fylgdi því eftir með tveimur stigum stuttu seinna og minnkuðu þannig muninn niður í 3 stig, 60-63.  Brynjar Björnsson var svo auðvita mættur í næstu sókn til þess að tvöfalda forskotið og setti niður sinn fjórða þrist i leiknum, 60-66.  Þegar þriðja leikhluta var lokið var forskot KR-inga 5 stig, 63-68. 

 

Stigin létu bíða eftir sér í upphafi fjórða leikhluta og það var ekki fyrr en eftir tvær mínútur að KR bjó til þessa glæsilegu fléttu, Craion varði sniðskot Dags Kár, boltinn þaut upp völlinn og Darri Hilmarsson lagði sniðskotið ofaní, 63-70.  Craion gerði sér lítið fyrir og varði þriggja stiga tilraun Dags í næstu sókn líka og Hrafn Kristjánsson tók leikhlé fyrir Stjörnuna stuttu seinna.  Hlutirnir voru að falla með KR og baráttuboltarnir enduðu hjá þeim.  Það skilaði stigum sem smá smaan hrönnuðust hraðar upp hjá KR.  Þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum munaði 9 stigum á liðunum, 66-75.  Stjörnumenn náðu þessum mun niður í 6 stig en komust ekki nær en það næstu mínútur.  Þegar fjórar mínútur voru eftir féll Pavel í gólfið eftir baráttu undir körfunni og hélt um aftanvert læri, hann fór á bekkinn og kom ekki meira við sögu í leiknum.  Það virtist hins vegar ætla að breytast þegar Jeremy Atkinson komst inní sendingu og kláraði hraðaupphlaup með glæsilegri troðslu, 75-79.  Finnur Freyr tók þá leikhlé fyrir KR sem skilaði þó ekki meiru en því að Marvin Valdimars stal boltanum í næstu sókn og Dagur skilaði þeim bolta ofaní og munurinn orðinn 2 stig, 77-79.  Höllinn tók all hressilega við sér og stóðu svo gott sem allir stuðningsmenn Stjörnunnar á fætur.  Craion jók muninn aftur fyrir KR og þegar tvær mínútur voru eftir munaði aftur 6 stigum á liðunum, 77-83.  Seinustu tvær mínútur leiksins stóðu allir stuðningsmenn í höllinni á fætur og þónokkuð um að menn væru farnir úr að ofan til þess að láta æsing sinn í ljós.  Þegar ein mínúta var eftir höfðu KR-ingar boltan og 2 stiga forskot, 81-83.  Sú sókn fór forgörðum og Justin Shouse jafnaði leikinn af vítalínunni stuttu seinna.  Aftur klikkuðu KR-ingar í næstu sókn og sendu svo Jeremy Atkinson á línuna, þar sem hann kom Stjörnunni yfir í fyrsta skiptið síðan í fyrsta leikhluta, 85-83.  KR tók þá leikhlé með 42 sekúndur eftir á klukkunni.  KR henti boltanum alveg fáránlega fjótt frá sér í næstu sókn og Justin Shouse dripplaði sig í gegnum vörn KR en skotið vildi ekki niður.  KR brunuðu þá í sókn með 10 sekúdnur eftir, þar fékk Helgi Magnússon tvær tilraunir til þess að stela sigrinum með þriggja stiga skoti sem bæði geiguðu og fögnuður Stjörnunnar í leikslok var algjör.  

 

Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Jeremy Atkinson með 31 stig og 9 fráköst en næstu menn voru Justin Shouse með 19 stig og 10 stoðsendingar og Dagur Kár Jónsson með 14 stig.  Í liði KR var Brynjar Þór Björnsson með 23 stig en næstu menn voru Michael Craion með 18 stig og 9 fráköst og Darri Hilmarsson með 13 stig. 

Myndasafn – Snorri Örn
Myndasafn – Davíð Eldur

Myndasafn – Bára Dröfn 

Til hamingju Stjarnan!!

 

 

 

Umfjöllun : [email protected]

 

myndir:  Axel FInnur 

Viðtöl eftir leik 

 
Fréttir
- Auglýsing -