spot_img
HomeFréttirStjarnan áfram í ótrúlegum leik

Stjarnan áfram í ótrúlegum leik

Það var sannkölluð oddaleiksstemming í Ásgarði í kvöld er Stjarnan tók á móti Keflavík í oddaleik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla.  Eftir tvo ótrúlega hörkuleiki var óhætt að búast við háspennuleik, enda höfðu liðin eldað grátt silfur fyrir leikinn, eins og frægt er orðið.  
Rífandi stemming var í húsinu í upphafi leiks og ekki laust við að liðin upplifðu smá skjálfta í látunum, enda var mjög lítið skorað í upphafi leiks.  Keflvíkingar virtust alltaf vera skrefi á undan en Stjarnan var þó aldrei langt undan, en léleg skotnýting þeirra inni í teig var það sem skildi liðin að.  Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 15-18, gestunum í vil og allt á suðupunkti.

Keflvíkingar voru áfram skrefi á undan í öðrum leikhluta, en Stjarnan átti samt nóg inni, enda var hittni heimamanna á vítalínunni alls ekki til fyrirmyndar.  Í miðjum leikhlutanum gerðist svo umdeilt atvik er Fannar Helgason og Valur Orri Valsson stukku báðir á lausan bolta á gólfinu, en Fannar virtist hafa gefið Vali olnbogaskot, en þetta atvik var nánast deja vu frá leik 2 er Magnús Gunnarsson gaf Marvin Valdimarssyni eftirminnilegt olnbogaskot.  Dómarar leiksins dæmdu þó ekkert nema uppkast, Keflavík í vil, en Keflvíkingar virtust gríðarlega ósáttir við þá ákvörðun.  Eftir svakalega baráttu voru gestirnir einu stigi yfir fyrir lokasekúndur hálfleiksins, en þá fékk Charlie Parker boltann og hitti svakalega flautukörfu, við gríðarlegan fögnuð gestanna.  Staðan var því 37-41 Keflvíkingum í vil í hálfleik.

Sama var uppi á teningnum í þriðja leikhluta.  Keflvíkingar náðu frábæri rispu um miðbik hálfleiksins, þar sem þeir komust 11 stigum yfir með tveimur þristum í röð frá Halldóri Halldórssyni og Magnúsi Gunnarssyni, og fór um margan Stjörnumanninn.  Heimamenn náðu þó aðeins að klóra í bakkann fyrir lokaleikhlutann en gestirnir voru samt átta stigum yfir, 53-61 var staðan fyrir lokafjórðunginn. 

Keflvíkingar virtust hafa leikinn í höndum sér fyrir lokafjórðunginn en maður að nafni Justin Shouse virtist á öðru máli.  Shouse tók leikinn algerlega í sínar hendur í fjórða leikhluta og réðu Keflvíkingar ekkert við kappann.  Undir stjórn Shouse náðu Garðbæingar að komast yfir í leiknum í fyrsta sinn í þó nokkurn tíma og í þetta sinn fór hrollur um Keflvíkinga.  Eftir æsilegar lokamínútur var staðan jöfn, 77-77, að loknum venjulegum leiktíma og því þurfti framlengingu í þessum magnaða leik.

Í framlengingunni var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda.  Stjörnumenn skoruðu fyrstu sex stig leikhlutans og litu aldrei til baka eftir það.  Justin Shouse fór á kostum og átti ótrúleg tilþrif þegar hann “klobbaði” Halldór Halldórsson og setti svo langan tvist beint í grímu Halldórs.  Eftir þetta virtist allur vindur úr gestunum og eftir ótrúlegan leik voru það Stjörnumenn sem tryggðu sig í undanúrslitin, lokastaðan í Garðabæ var 94-87.

Marvin Valdimarsson átti flottan leik í liði Stjörnunnar og hann var að vonum ánægður í leikslok: ,,Þetta var alveg ótrúlega sætt, við náðum loksins að slökkva í þessum glataða hroka sem Keflvíkingar hafa sýnt allt einvígið og því var ótrúlega ljúft að sýna hvort liðið er betra.  Justin tók leikinn algerlega í sínar hendur í lokin og við áttum þetta skuldlaust í framlengingunni”.

Justin Shouse var án nokkurs vafa maður leiksins, en Stjörnumaðurinn knái skoraði 25 stig, flest þeirra í fjórða leikhluta og framlengingunni, en Justin steig upp á hárréttum tíma.  Þá átti Jovan Zdravevski nokkra bombuþrista undir lok venjulegs leiktíma.  Renato Lindmets var einnig betri en enginn með 25 stig, 9 fráköst og 4 varin skot og Marvin Valdimarsson bætti við 20 stigum fyrir heimamenn.

Hjá Keflvíkingum voru það Charlie Parker og Jarryd Cole sem drógu vagninn.  Parker setti 24 stig en Cole var með 27 stig, 12 fráköst og 5 varin skot.  Keflvíkingar hljóta þó að naga sig í handarbökin enda voru þeir með leikinn í vasanum nánast fram í lokafjórðunginn.  Það er hins vegar ekki það sem telur í þessari íþrótt og það eru því Stjörnumenn sem komast áfram í undanúrslit eftir eina ótrúlegustu rimmu síðari ára.  Garðbæingar mæta þar deildarmeisturum Grindavíkur og hefst einvígi þeirra þann 10. apríl næstkomandi.

 

Umfjöllun:  Elías Karl Guðmundsson

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -