spot_img
HomeFréttirStjarnan á toppinn eftir sigur á Þór

Stjarnan á toppinn eftir sigur á Þór

Stjörnumenn tóku í kvöld á móti silfurliði Maltbikars karla, Þórsurum úr Þorlákshöfn. Stjörnumenn höfðu endurheimt Tómas Heiðar Tómasson úr meiðslum eftir bikarhléið, en Justin Shouse var enn fjarverandi eftir höfuðhögg sem hann fékk í janúar. Leikurinn var jafn lengst af þar til í fjórða leikhluta. Þá stungu heimamenn einfaldlega af og lönduðu góðum 86-78 sigri.

 

Lykillinn

Leikurinn var heilt yfir frekar jafn í fyrri hálfleik og var staðan jöfn í hálfleik, 47-47. Eftir þrjá leikhluta höfðu Þórsarar hins vegar fimm stiga forystu, 60-65. Í fjórða leikhluta höfðu Stjörnumenn hins vegar öll völd á vellinum. Svo virtist vera sem einhver bikarþynnka væri að hrjá þunnskipaðan hóp Þórsara og það nýttu Stjörnumenn sér í lokin. Fór svo að Stjarnan vann lokaleikhlutann 26-13.

 

Hetjan

Hlynur Bæringsson átti enn einn stórleikinn í liði Stjörnunnar með 20 stig, 12 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 varin skot, sem skiluðu 41 framlagsstigi í hús, sem verður að teljast nokkuð gott. Þá skoraði Anthony Odunsi 20 stig og tók 12 fráköst. 

 

Tölfræðin

7- Lið Þórs átti einungis 7 stoðsendingar í kvöld, en flestar þeirra körfur komu eftir einstaklingsframtök frá Tobin Carberry og Maciej Baginski, sem skoruðu 30 og 23 stig. Enginn annar leikmaður Þórs skoraði hins vegar yfir 10 stig.  

 

Framhaldið

Stjörnumenn eru eftir sigurinn á toppi Domino’s deildarinnar, að minnsta kosti fram á annað kvöld þegar KR-ingar spila við Þór á Akureyri. Þórsarar eru hins vegar í fjórða sæti deildarinnar með 18 stig, líkt og Grindavík sem á leik til góða á Þór. Næst leika Stjörnumenn gegn Tindastóli á Sauðárkróki næsta mánudag, en Þórsarar mæta nöfnum sínum frá Akureyri á heimavelli næstkomandi sunnudag.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

 

Fréttir
- Auglýsing -