spot_img
HomeBikarkeppniStjarnan á kunnuglegum slóðum eftir sigur á Val

Stjarnan á kunnuglegum slóðum eftir sigur á Val

Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Val í átta liða úrslitum Geysisbikars karla á heimavelli sínum, Mathús Garðabæjarhöllinni. Staða liðanna í Domino’s deildinni gæti varla verið ólíkari þessi misserin, en Stjörnumenn sitja á toppi deildarinnar með tíu sigurleiki í röð, á meðan Valur sitja nú í fallsæti eftir vægast sagt brösugt gengi að undanförnu, með einn sigur í síðustu tíu leikjum.

Það er þó gömul saga og ný að staðan í deildakeppninni skiptir engu í bikarnum. Eftir vægast sagt erfiða fæðingu höfðu Valsarar fjögurra stiga forystu að loknum fyrsta leikhluta, 11-15. Vörn gestanna var frábær, og virtust Garðbæingar hreinlega ekki tilbúnir í leikinn.

Í öðrum leikhluta tóku Stjörnumenn hins vegar við sér og náðu að keyra hraðann í leiknum upp svo um munaði. Meðalsókn hvors liðs var í kringum sjö sekúndur, en þrátt fyrir það stóð stigaskorunin aðeins á sér og í hálfleik höfðu Stjörnumenn eins stigs forystu, 35-34.

Í seinni hálfleik voru Stjörnumenn hins vegar alltaf skrefi á undan og voru fljótlega komnir með tíu stiga forskot í þriðja leikhluta. Valsarar náðu að minnka muninn niður í þrjú stig á tímabili í fjórða leikhluta, en þá setti Stjarnan einfaldlega í annan gír og unnu að lokum 13 stiga sigur, 78-65.

Lykillinn

Það sást á endasprettinum að Stjarnan er einfaldlega með betra lið en Valur þessa dagana, en þrátt fyrir hetjulega baráttu gestanna áttu þeir ekki svör við heimamönnum undir lokin. Þar vegur frákastabaráttan þungt, en Stjörnumenn tóku 63 fráköst (þar af 23 sóknarfráköst) gegn 32 fráköstum gestanna.

Bestur

Lið Stjörnumanna var nokkuð jafnt í kvöld og í raun enginn sem stóð upp úr. Nick Tomsick var þeirra stigahæstur með 21 stig. Hjá Val var Pavel Ermolinskij góður að vanda, en Naor Sharabani var einnig öflugur með 17 stig og 14 stoðsendingar.

Framhaldið

Stjörnumenn eru komnir í undanúrslit Geysisbikarsins og verða í pottinum þegar dregið verður í hádeginu á morgun. Garðbæingar munu því mæta til leiks í Laugardalshöllinni annað árið í röð. Valsmenn eru hins vegar úr leik og geta nú einbeitt sér að Domino’s deildinni.

Myndasafn

Tölfræði leiks

Myndir / Guðlaugur Ottesen

Fréttir
- Auglýsing -