Nú þegar líður að loka leikjum Icelanda Expressdeildar karla þá er ekki seinna en vænna að fara yfir stöðu efstu og neðstu liða og hverjir eiga möguleika á hvaða sæti. Aldrei fyrr hefur verið jafn mikilvægir leikir í deildinni og mun deildarmeistaratignin skila gríðarlega mikilvægum heimavallarrétti í ár.
Lið KR eru efstir og hafa verið það lungan af mótinu, í það minnsta seinnihlutann. Þeir hafa komið sér upp gríðarlega sterkum hópi leikmanna og nokkuð ljóst að það verður erfitt verkefni að ná þeim stóra úr vesturbænum. Þeir eiga þó eftir 3 erfiða leiki gegn liðum sem öll banka á dyr deildarmeistaratitilsins.
Næstu lið, Keflavík, Njarðvík, Snæfell, Stjarnan og Grindavík eru öll í einum hnapp, en þó aðeins tveimur sigrum frá toppnum. Því hefur aldrei verið mikilvægara að sigra andstæðingin með fleiri stigum en þeir töpuðu í fyrri umferðinni. T.a.m þá eigast við í kvöld Njarðvík og Stjarnan, en Stjarnan fór með sigur í fyrri umferðinni með 7 stigum. Því er nokkuð mikilvægt fyrir Njarðvíkinga að sigra með í það minnsta 8 stigum ef liðin tvö myndu enda með jafn mörg stig að loknu móti. Snæfell tapaði fyrir KR með 6 stigum í fyrri umferðinni og þurfa því að sigra með 7 stigum í síðustu umferð þegar þeir taka á móti Vestubæingum.
Hamar, Tindastóll, Fjölnir, ÍR og Breiðablik slást svo öll um síðustu tvö sætin í úrslitakeppninni. Hamar stendur þar best að vígi eftir gríðarlega mikilvægan sigur í gærkvöldi á Fjölni. Hamarsmenn geta nánast tryggt sæti sitt í úrslitakeppninn í næstu umferð og um leið gert draum Breiðabliks að engu um sætið í úrslitum og sem verra er verður staða Breiðablik ansi slæm í baráttunni við fallið í 1. deild.
Það er nokkuð ljóst að næstu umferðir í deildinni verða gríðarlega spennandi. Mörg "óvænt" úrslit hafa litið dagsins ljós í vetur og er ekkert lið öruggt með sitt sæti sem stendur þrátt fyrir að svo stutt sé eftir af mótinu.



