Keflavík landaði dýrum og góðum stigum í Ljónagryfjunni í kvöld þegar þeir lögðu erkifjendur sína úr Njarðvík 82-88. Amin Stevens fór mikinn í liði Keflavíkur með 33 stig, 21 frákast og 3 stoðsendingar í liði Keflavíkur. Hjá Njarðvík var Corbin Jackson með 21 stig og 4 fráköst. Allt stefndi í háspennu á lokasprettinum en Keflvíkingar náðu stjórninni á ný og sigldu heim sigri. Keflvíkingar geta því um frjálst höfuð strokið með montréttinn fram yfir jólahátíðina.
Fléttan
Staðan á málum Harðar Axels síðustu dægrin hefur verið óljós en í dag bárust þau tíðindi að hann myndi spila með Keflavík í leiknum í kvöld og munar um minna að hafa byrjunarliðsmann úr A-landsliðinu við höndina. „Vagg og velta“ leikur Harðar og Stevens kom vel út og Hörður skilaði af sér 16 stigum og 6 stoðsendingum.
Kuldinn
Hroll setti að Njarðvíkingum, Logi lengst af ekki að finna körfuna og byrjaði 0-7 í þristum áður en hann fór að detta og bakvarðasveit heimamanna lét vörn Keflavíkur á hálfum velli raka of mikið af skotklukkunni sem kom út í þónokkuð af illa ígrunduðum skotum.
Tölfræðin lýgur ekki
Eftir um 16 mínútna leik var Amin Stevens kominn með jafn mörg fráköst í liði Keflavíkur og allt Njarðvíkurliðið! Keflavík vann frákastabaráttuna 41-30 og átti Stevens heiðurinn að meiri en helmingi þeirra eða 21 talsins. Þá var Keflavík 7 af 17 í þristum en Njarðvíkingar 10-35.
Sögulegt
Leifur Garðarsson körfuknattleiksdómari dæmdi í kvöld sinn 1000. meistaraflokksleik á vegum KKÍ og sína 38. grannglímu millum Njarðvíkur og Keflavíkur. Þar með jafnaði hann dómarann Kristinn Albertsson sem einnig dæmdi 38 grannglímur erkifjendanna. Til hamingju Leifur með áfangann!
Þáttaskil
Njarðvíkingar létu sverfa til stáls í fjórða leikhluta og færðu sig nærri gestunum en þegar um fimm mínútur voru til leiksloka var dæmd óíþróttamannsleg villa á Njarðvíkinga og Keflavík jók muninn í 68-77 úr 68-74. Heimamenn komust ekki að í leiknum eftir þetta og án þess að skella skuldinni alfarið á þessa óíþróttamannslegu villu þá hafði hún engu að síður áhrif og mögulega óþörf á viðkvæmum tímapunkti leiksins. Keflvíkingar nýttu sér þetta hinsvegar til hins ítrasta og kláruðu leikinn þar sem þeir voru að langmestum hluta við stýrið.
Góður sigur hjá Keflavík og Stevens heillar í fyrsta leik, illviðráðanlegur í námunda við körfuna. Flesta grunar nú að Hörður Axel sé á höttunum eftir atvinnumannasamningi erlendis en á meðan hans nýtur við í liði Keflavíkur er leikstjórnunin sterk og samspil hans og Stevens eitthvað sem verður öðrum liðum erfitt viðureignar.
Stefan Bonneau lék ekkert með Njarðvík í síðari hálfleik og staðfesti Daníel Guðni þjálfari Njarðvíkinga eftir leik að Bonneau hefði verið stífur og því ákveðið að leika honum ekki meira þetta kvöldið.
Framlagið
Fimm leikmenn Keflavíkur gerðu 11 stig eða meira í leiknum, Magnús Már Traustason átti góðar rispur og Guðmundur Jónsson gerði öll sín 11 stig í fyrri hálfleik en Reggie Dupree var traustur fyrir utan með 3-3 í þristum. Snjólfur Marel átti sterka frammistöðu Njarðvíkurmegin með 15 stig og 9 fráköst og Logi kláraði með 15 stig en byssan þurfti sjö tilraunir áður en fyrsti þristurinn lenti.
Myndasafn – Skúli B. Sigurðsson
Umfjöllun – Jón Björn Ólafsson