18:51
{mosimage}
(Steven Thomas í leik með Grindavík gegn Njarðvík á síðustu leiktíð)
Nýliðar Stjörnunnar í Iceland Express deild karla hafa samið við Bandaríkjamanninn Steven Thomas sem lék 13 leiki með Grindavík á síðustu leiktíð. Thomas mun líkast til skila stöðu miðherja hjá Stjörnunni rétt eins og hann gerði hjá Grindvíkingum þrátt fyrir að vera ekki hávaxinn leikmaður í þá stöðu.
Thomas varð frá Grindavík að víkja í fyrra sökum meiðsla en hann var klárlega á meðal bestu leikmanna deildarinnar þar sem hann gerði 20,9 stig að meðaltali í þessum 13 leikjum. Hann tók alls 135 fráköst eða um 10,4 fráköst að meðaltali í leik.
Garðbæingar hafa styrkt leikmannahóp sinn verulega fyrir átökin í Iceland Express deildinni komandi vetur en þegar hafa Dimitar Karadzovski, Sævar Ingi Haraldsson, Fannar Helgason og Sveinn Ómar Sveinsson gengið til liðs við félagið. Ljóst má því þykja að Stjörnumenn ætla sér ekki að fara í gegnum annað sigurlaust tímabil í efstu deild en það gerðist leiktíðina 2001-2002.