spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaSterkur varnarleikur Keflavíkur banabiti Skallagríms

Sterkur varnarleikur Keflavíkur banabiti Skallagríms

Keflavík lagði Skallagrím í kvöld í fyrstu umferð Subway deildar kvenna, 80-66.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð hresslega af stað. Heimakonur í Keflavík pressuðu stíft og Skallagrímur var með fá svör við því fyrstu mínúturnar. Eftir að nokkrar mínútur voru liðnar af fyrsta leikhlutanum fara stigin þó að skila sér á töfluna hjá báðum liðum, en þegar að hlutinn endar er Keflavík 2 stigum á undan, 18-16. Í upphafi annars leikhlutans ná heimakonur svo að slíta sig aðeins frá gestunum. Ná mest 11 stiga forystu í hlutanum, en þegar að liðin halda til búningsherbergja á hálfleik er staðan 42-35.

Í upphafi seinni hálfleiksins má segja að Keflavík hafi farið langleiðina með leikinn. Halda Skallagrím í aðeins 7 stigum í þriðja leikhlutanum og eru með þægilega 17 stiga forystu fyrir þann fjórða, 59-42. Í lokaleikhlutanum nær Keflavík mest 20 stiga forystu. Skallagrímur svara því þó og nær að koma muni liðanna minnst niður í 11 stig þegar um 3 mínútur eru eftir. Lengra komast þær þó ekki og Keflavík hefur nokkuð öruggan sigur að lokum, 80-66.

Það munar um minna

Í lið Keflavíkur vantaði Daniela Wallen Morillo. Samkvæmt heimildum Körfunnar þurfti hún að sætta sig við að vera í borgaralegum klæðum á bekk liðsins þar sem hana vantar leikheimild fyrir tímabilið. Það mun þó ekki vera langt í að hún verði með og gera má ráð fyrir henni í næsta leik liðsins. Munar um minna fyrir Keflavík, en Daniela hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar síðastliðin tímabil.

Kjarninn

Þessi sigur var heilt yfir nokkuð öruggur hjá Keflavík. Sterkt að einhverju leyti líka að klára þetta án síns besta leikmanns Daniela Morillo. Varnarleikur þeirra á lönum köflum setti Skallagrím algjörlega af laginu, pressuðu boltann stíft og uppskáru oftar en ekki laun fyrir erfiðið. Skallagrímsliðið aftur á móti virðist eiga eitthvað í land. Fóru í gegnum miklar leikmannabreytingar á milli tímabila og eiga væntanlega eftir að styrkjast eftir því sem líður á mótið.

Atkvæðamestar

Atkvæðamestar fyrir Keflavík í kvöld voru Anna Ingunn Svansdóttir og Eygló Kristín Óskarsdóttir. Anna Ingunn skilaði 21 stigi, 6 fráköstum, 6 stoðsendingum og 5 stolnum boltum og Eygló Kristín 16 stigum, 7 fráköstum og 4 vörðum skotum.

Fyrir gestina úr Borgarnesi var það Mammusu Secka sem dró vagninn með 15 stigum og 14 fráköstum og þá skilaði Nikola Nedoroščíková 22 stigum, 6 fráköstum og 4 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst komandi sunnudag 10. október. Skallagrímur tekur á móti Íslandsmeisturum Vals í Borgarnesi á meðan að Keflavík fær bikarmeistara Hauka í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -