spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSterkur Stólasigur í Síkinu

Sterkur Stólasigur í Síkinu

Tindastóll tók á móti Val í Bónus deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólastúlkur komu mörgum á óvart með sigri á Njarðvík í síðasta leik fyrir jólafrí á meðan Valur vann Hamar/Þór örugglega.

Leikurinn fór fjörlega af stað og það var jafnt á flestum tölum fram um miðjan leikhlutann. Stólar tóku svo á smá sprett með &1 play frá Mörtu og þristi frá Oceane sem kom þeim í 19-14. Stólar leiddu á síðustu mínútunni 25-19 en þristur frá Döggu lagaði stöðuna. Heimastúlkur áttu svo afleitan annan leikhluta, mikið af töpuðum boltum og misheppnuðum skotum auk þess sem varnarfærslur liðsins voru oft á tíðum skrautlegar. Valsstúlkur gengu á lagið og jöfnuðu 35-35 þegar 3 mínútur voru til hálfleiks. Gestirnir unnu svo þessar 3 mínútur 9-2 og staðan 37-44 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Stólar byrjuðu seinni hálfleik á besta mögulega hátt þegar Brynja Líf setti flottan þrist úr horninu. Mikil barátta í báðum liðum og Valur hélt forystunni ágætlega og komust í tíu stiga forystu 46-56 um miðjan leikhlutann. Marta svaraði með þrist og svo öðrum og leikurinn jafnaðist aftur. Þristur frá Ingu Sólveigu kom muninum í 1 stig þegar tvær mínútur lifðu leikhlutans og þristur frá Oceane kom Stólum yfir, 62-60 fyrir lokaátökin. Ekki mátti sjá milli liðanna í fjórða leikhluta en Marta kom Stólum í 75-69 með &1 play þegar 4 mínútur voru eftir. Reshawna Stone svaraði með þrist og lokamínúturnar urðu æsispennandi. Reshawna Stone kom Val í 75-77 með þrist en Marta jafnaði. Dagga fékk furðulega opið layup sem kom Val aftur yfir en Stólar áttu lokaorðin á vítalínunni og tryggðu gríðarlega mikilvægan sigur, 81-79.

Hjá heimakonum var Marta stigahæst með 26 stig og afgreiddi einnig 9 stoðsendingar. Maddie skilaði 19 stigum og 8 fráköstum. Hjá Val átti Stone algeran stórleik með 37 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar og Ásta Júlía átti flottan leik með 16 stig og 8 fráköst.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -