spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaSterkur Stólasigur á Haukum í Síkinu

Sterkur Stólasigur á Haukum í Síkinu

Tindastóll náði í sterkan sigur í Síkinu í kvöld þegar Israel Martin mætti með lærisveina sína í Haukum.

Martin sagðist aðspurður fyrir leik búast við erfiðu kvöldi, hann vissi hvernig það væri fyrir aðkomulið að mæta í Síkið. Það varð líka raunin og heimamenn byrjuðu leikinn ógnarsterkt og náðu 10 stiga forystu um miðjan fyrsta leikhluta og juku hana í 14 stig þegar um ein og hálf mínúta var eftir. Haukar virkuðu ráðvilltir og munaði þar miklu um þá sterku vörn sem Tindastóll lék gegn Kára Jóns alveg frá byrjun. Flenard og Gunnar Ingi minnkuðu muninn í 25-17 fyrir lok fyrsta hlutans. Í öðrum leikhluta var allt stál í stál og Haukarnir náðu að minnka muninn töluvert. Bilic og Pétur Rúnar sáu til þess að munurinn varð 6 stig í hálfleik, 49-43 fyrir heimamenn.

Tindastóll tók svo völdin í þriðja leikhluta, keyrðu á haukana og spiluðu mjög aggressíva vörn. Simmons fór að skora en hann hafði haft hægt um sig í þeirri deild í fyrri hálfleik. Staðan 70-55 fyrir lokaleikhlutann. Haukar komu með áhlaup eins og búast mátti við og náðu að komast í 73-67 með 2 þristum frá Kára en íleggja frá Bilic og þristur frá Pétri komu muninum aftur í 10 stig og 6 mínútur eftir. Martin tók leikhlé en mínútu síðar fengu Haukar þrist í andlitið frá Simmons og Martin þurfti að taka annað leikhlé og munurinn orðinn 13 stig, 80-67. Stólar sgildu sigrinum heim nokkuð örugglega eftir þetta og Bilic gulltryggði leikinn með svakalegri troðslu yfir Flenard Whitfield þegar rúm mínúta var eftir.

Pétur Rúnar var öflugastur heimamanna í kvöld og besti leikmaður vallarins með 21 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Jasmin Perkovic átti líklega sinn besta leik á tímabilinu og skilaði tröllatvennu með 18 stig og 12 fráköst. Hjá gestunum var Whitfield sá eini sem virtist með lífsmarki, setti niður 24 stig og reif niður 16 fráköst en það dugði skammt því aðrir voru nokkuð frá sínu besta.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -