spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaSterkur sigur Hauka í fyrsta leik einvígisins

Sterkur sigur Hauka í fyrsta leik einvígisins

Flott Haukaumgjörð

Ólafssalur var vel búinn fyrir körfuboltaleik í kvöld og endurkoma Thelmu Dísar Ásdísardóttur í Keflavíkurliðið hækkaði aðeins spennustigið fyrir leik. Leikmannahópur Hauka er hærri, þyngri og eldri á meðan aðalsmerki Keflvíkinga er hraði, stolnir boltar og þristar. Keflvíkingar skoruðu fyrstu körfu leiksins og var það eina forysta liðsins í leiknum og varði samtals fimmtán sekúndur.  Haukavörnin var á tánum frá byrjum og Keflvíkingum gekk ekkert að koma boltanum inn í teiginn á Danielu sem gert hafði þrettán fyrstu stig gestanna í síðasta leik liðanna. Komust Haukar í 22-11 með framlagi frá öllum leikmönnum áður en Daniela setti tvo þrista í röð á síðustu mínútu leikhlutans og kom Keflvíkingum aftur í seilingarfjarlægð 22-17. Var þarna komin saga leiksins í hnotskurn, Haukur alltaf við það að stingja Keflvíkinga af sem fundu alltaf leiðina í tækifærið til að stela leiknum.

Haukar alltaf með svör

Keflvíkingar byrjuðu annan leikhluta af krafti en þrátt fyrir ákafa varnarvinnu og dugnað þeirra þá héldu leikmenn Hauka ró sinni og fundu nýjar lausnir, fengu framlag frá fleiri leikmönnum. Haukar blokkuð þrjú skot Keflvíkinga í fyrsta leikhluta og bættu um betur og vörðu 4 til viðbótar í öðrum leikhluta. Hættan af þriggja stiga skotum Keflvíkinga var þó alltaf mikil og með tveimur slíkum, spjaldið ofaní og stolnum boltum hjá Daníelu á framvelli, þá náðist munurinn niður í tvö stig, 29-27. Haukarnir fundu svör, gættu boltans og fundu færi með góðum sendingum eða nýttu sér stærðar- og þyngdarmun til að vinna stöðubaráttuna við körfuna. Bættu þær í forystuna og gengu til hálfleiks þrettán stigum yfir, 42-29.

Krítískur þriðji leikhluti

Upphaf seinni hálfleiks hefur nokkrum sinnum orðið Haukaliðinu að falli á þessu tímabili en að þessu sinni mættu Haukastúlkur algjörlega tilbúnar og héldu áfram að gera sóknarleik Keflvíkinga erfitt fyrir. Hjálparvörn heimamanna var óhemjufljót án þess að gefa eftir fráköstin og komust Haukar í 53-35 þegar þrjár mínútur voru eftir. Keflvíkingar svöruðu með 2-9 áhlaupi og komu unnu leikhlutann með einu. Staðan 55-44 og enn mögulegt fyrir gestina að komast aftur inn í leikinn.

Of margir með framlag Haukamegin

Þrátt fyrir að Keflvíkingar hafi eygt von í sigur í lok þriðja þá varð sigurvonin aldrei annað er fjarskafalleg. Haukavörnin hélt áfram að mala, frákastabaráttán var heimastúlkna og endaði liðið einnig með 10 varin skot. Þegar Keflvíkingar tókst að setja pressu á Hauka þá slökkti Alyesha á vonum þeirra með vel tímasettum körfum og vítum þegar leið að leikslokum.

Hver var lykilinn að sigrinum

Vörn Hauka og vel skipulagður sóknarleikur voru lykill heimamanna og voru Keflvíkingar alltaf undir pressu. Keflvíkingar hittu aðeins úr 32% tveggja skota sinna á móti 60% nýtingu Hauka. Haukar náðu fjórðungi fleiri fráköstum (49-36), stálu fleiri boltum og blokkuðu heil 10 skot sem er alls ekki algengt, hvort sem er hjá konum eða körlum. Þá fengu Haukar mun meira framlag frá öllum leikmönnum þótt Alyesha hafi verið best. Framlagsstig Hauka voru 113 gegn aðeins 59 hjá Keflvíkingum en Daniela skilaði 39 af þessum 59 tölfræðipunktum.  Varnarframlag bakvarðanna Þóru Kristínar og Írenu var mikilvægt en ekki síðra framlag kom frá Evu Margréti og Elísabetu Ýr sem kæfðu margar sóknir með hæð og góðri fótavinnu. Þá átti Lovísa Björt einn sinn besta leik í langan tíma með 11 stig og 10 fráköst.

Hvað gerist næst

Jón Halldór Eðvaldsson kallaði lið sitt mýs í viðtali eftir leikinn og ljóst er að hann er byrjaður að kynda undir keppniseldinn sín megin. Ungt lið Keflavíkur er mun sterkara á heimavelli sem ekki er nefndur Sláturhúsið fyrir rúsínugerð. Hann og Hörður Axel þurfa að kokka upp leikplan sem finnur lausnir á gríðaröflugri Haukavörninni á hálfum velli. Þá mun Thelma Dís verða kominn betur inn í leik liðsins. Þjálfarar Hauka vilja eflaust bara endurtekningu á þessum leik, þrisvar, og greiða leið í úrslitin en svo einfalt er það ekki. Nú er komið að Keflvíkingum að hræra í súpunni og bjóða upp á nýtt bragð á Sunnubrautinni.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Jóhannes Albert

Fréttir
- Auglýsing -