Stjarnan og Hamar munu berjast í oddaleik á miðvikudag um laust sæti í Domino´s deild kvenna á næstu leiktíð. Garðbæingum tókst í dag það sem þeim hafði aldrei áður tekist þessa leiktíðina, að leggja Hamar að velli. Hamar leiddi 1-0 fyrir leik dagsins en Stjarnan jafnaði metin en skyttur Garðbæinga stóðu sína plikt og í fjórða leikhluta kaffærðu þær gestina úr Blómabænum. Lokatölur 61-45 í Ásgarði í dag. Bryndís Hanna Hreinsdóttir var stigahæst í sigurliði Stjörnunnar með 18 stig og 4 fráköst en Jenný Haðardóttir skoraði 15 stig í liði gestanna.
Garðbæingar mættu klárir til leiks á sínum heimavelli og komust í 13-6 eftir þriggja stiga körfu frá Kristínu Fjólu Reynisdóttur. Hamarskonur gerðu þó fjögur síðustu stig fyrsta leikhluta þar sem Dagný Davíðsdóttir átti lokaorðið með teigkörfu eftir glæsilegt gegnumbrot.
Dagný Davíðsdóttir var aftur á ferðinn í upphafi síðari hálfleiks og minnkaði muninn í 14-13 með þrist fyrir Hvergerðinga. Bæði lið reyndu fyrir sér í svæðisvörn og heimakonur í Stjörnunni voru að pressa. Hægt og bítandi reyndi pressan á þolrif gestanna sem voru með alls 16 tapaða bolta í fyrri hálfleik!
Andrea Ösp og Bára Fanney stálu saman sex boltum í fyrri hálfleik og jafnan var Bryndís Hanna lögð af stað í hraðaupphlaupið þar sem Garðbæingar uppskáru þónokkur auðveld stig. Hvergerðingar fóru illa með boltann í fyrri hálfleik og því leiddi Stjarnan 33-20 í leikhléi en lokastigin gerði Andrea Ösp eftir sóknarfrákast og skoraði hún um leið og hálfleiknum lauk svo meðbyrinn var umtalsverður hjá heimakonum á leið inn í hálfleik. Bryndís Hanna var með 12 stig í hálfleik hjá Stjörnunni en Jenný Harðardóttir 6 í liði Hamars.
Blómabæjarkonur opnuðu síðari hálfleikinn með 6-0 skvettu en Bára Fanney Hálfdánardóttir gerði fyrstu stig Stjörnunnar eftir þriggja mínútna leik í síðari hálfleik, staðan 35-26 fyrir Stjörnuna. Hvergerðingar voru ekki hættir því Marín Laufey og Katrín splæstu báðar í þrist fyrir Hvergerðinga og nú var einnig röðin komin að Garðbæingum að fara illa með boltann, slæmar ákvarðanir heimakvenna og orkumeiri varnarleikur gestanna færðu Hamri 19-9 sigur í leikhlutanum og staðan því 42-39 fyrir Stjörnuna og ljóst að loka leikhlutinn yrði æsispennandi.
Hamar náði mest að minnka muninn í 42-41 í upphafi fjórða leikhluta en nær komust þær ekki. Stjörnukonur skelltu í lás í vörninni og þær Kristín Fjóla og Bryndís Hanna létu kné fylgja kviði með stórum þristum. Hamar missti þær Írisi og Bjarney af velli með fimm villur og sú fjarvera var Hvergerðingum þungbær.
Bára Fanney kom Stjörnunni í 50-41 eftir stórglæsilega sendinu frá Andreu Ösp í teignum og munurinn orðinn níu stig sem var ansi mikið eins og leikurinn spilaðist í dag. Hamarskonum var fyrirmunað að skora gegn þéttri Stjörnuvörninni og höfðu gestirnir það af að salla inn sex stigum og Garðbæingar tryggðu sér oddaleik með lokatölum 61-45. Fyrsti sigur Stjörnunnar á Hamri kominn í hús þessa vertíðina og ljóst að oddaleikurinn í Hveragerði á miðvikudag verður dúndrandi skemmtun.
Bryndís Hanna, Kristín Fjóla og Heiðrún Ösp fóru fyrir stigaskori Stjörnunnar í dag og þá voru þær Bára Fanney og Andrea Ösp einnig sterkar, Bára með alls 16 fráköst! Flottur liðssigur Garðbæinga á meðan lykilmenn Hamars fundu ekki sinn besta leik þennan daginn.
Umfjöllun/ [email protected] – [email protected]



