Körfuknattleikssamband Íslands í samstarfi við Félag Körfuknattleiksþjálfara á Íslandi stóð að þjálfaranámskeiði 2.a. um síðustu helgi. Alls fóru 11 fyrirlesarar með erindi fyrir þá 50 þjálfara sem sóttu námskeiðið. Aðalfyrirlesari námskeiðsins var Janez Drvaric frá Slóveníu en hann er virtur fyrirlesari frá FIBA sem ferðast um allan heim í sínum störfum. Ingi Þór Steinþórsson formaður FKÍ sagði það sterkt að fá mann eins og Drvaric við námskeiðið.
„Við í stjórn þjálfarafélagsins erum stoltir af námskeiðinu sem var að ljúka í Ásgarði og samstarfið við KKÍ og FIBA Europe er ómetanlegt. Að fá svona toppmenn einsog Janez Drvaric er sterkt fyrir okkur og við vonandi náum að halda þessu til streitu á þessum endurmenntunarnámskeiðum. Við fengum flotta blöndu af þjálfurum til að vera með fyrirlestra og erum við þeim þakkláttir fyrir þeirra störf,“ sagði Ingi Þór en verið er að boða leyfiskerfi þjálfara.“
„Stjórn Þjálfarafélagsins með Ágúst Björgvins í fararbroddi hefur hent fram menntakerfi þjálfara og í framhaldinu í samvinnu við fræðslunefnd KKÍ þá stefnum við að leyfiskerfi fyrir þjálfara í okkar fögru íþrótt. Það þýðir að innan skamms mun enginn þjálfari í íslenskum körfubolta þjálfa án þess að hafa tilskilið leyfi. Það var ágætlega mætt á námskeiðið og er ég viss um að á næsta námskeiði verður enn betur mætt. Næsta verkefni okkar er að meta þjálfara landsins og sjá hvar þeir standa miðað við menntunarkerfið. Það er mikill hugur í stjórn FKÍ og einnig forkólfum KKÍ að þetta verði í lagi og því mikilvægt að allir skilji hvað við erum að gera.“
Fyrir þá sem ekki áttu þess kost að sækja námskeiðið er hægt að kaupa fyrirlestrana hjá KKÍ – nánari upplýsingar á [email protected]
Mynd/ Fjölmennur og fjölbreyttur hópur sótti þjálfaranámskeiðið.



