spot_img
HomeFréttirSterk frammistaða hjá Hlyn er Sundsvall tók 2-1 forystu

Sterk frammistaða hjá Hlyn er Sundsvall tók 2-1 forystu

 
Sundsvall Dragons tók í kvöld 2-1 forystu í úrslitaeinvíginu í sænsku úrvalsdeildinni þar sem liðið leikur gegn Norrköping Dolphins. Lokatölur leiksins voru 80-70 Sundsvall í vil en leikurinn fór fram á heimavelli Drekanna. Jakob og Hlynur létu vel að sér kveða í leiknum en Sundsvall hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir tap í fyrsta leik úrslitanna á heimavelli.
Drekarnir hittu vel í kvöld fyrir utan þriggja stiga línuna og settu 12 þrista í leiknum með 52% skotnýtingu. Hlynur og Jakob áttu fjóra af þessum 12 þristum í leiknum en Hlynur landaði myndarlegri tvennu með 16 stig og 10 fráköst en hann var einnig með 6 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 1 varið skot og var með hæsta framlag allra í leiknum eða 29 framlagsstig.
 
Jakob gerði 8 stig í leiknum, tók 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar en Andrew Mitchell var stigahæstur gestanna með 14 stig.
 
Fjórði leikur liðanna er á fimmtudagskvöld á heimavelli Norrköping.
 
Fréttir
- Auglýsing -