Samkvæmt heimildum ESPN íþróttafréttastöðvarinnar hefur Stephen Curry sigrað í kjöri íþróttafréttamanna á MVP NBA deildarinnar eða verðmætasta leikmanni tímabilsins.
Curry leiddi Golden State Warriors til 67 sigurleikja í vetur, sem er það mesta hjá félaginu frá upphafi. Hann bætti eigið met í skoruðum þriggja stiga körfum á leiktíðinni með 286 slíkum, og á 3 af 5 sætum í sögu NBA deildarinnar yfir flestar þriggja stiga körfur skoraðar á leiktíð.
Curry skoraði 23,8 stig; gaf 7,7 stoðsendingar og tók 4,3 fráköst að meðaltali í leik að viðbættum 2 stolnum boltum. Í vetur skaut hann 48,7% utan af velli með 44,3% nýtingu utan þriggja stiga línunnar.
Curry er fyrsti Warriors leikmaðurinn til að vinna til þessara verðlauna síðan Wilt Chamberlain hlaut þessa nafnbót 1960 þegar liðið spilaði í Philadelphia.



