Í gærkvöldi tóku Laugdælir á móti Breiðablik í fyrsta leik beggja liða í 1. deild á leiktímabilinu 2010-2011. Breiðablik hafði betur í viðureigninni, 95-82. Leikurinn var nokkuð jafn framan af en eftir slæman 3. leikhluta hjá Laugdælum varð aldrei aftur snúið og töpuðu þeir því fyrir vel mönnuðu liði Breiðabliks.
Laugdælir byrjuðu af mikilli hörku og keyrðu á Breiðablik frá fyrstu sókninni. Bjarni Bjarnason var þar fremstur í flokki með 12 stig í fyrsta leikhlutanum (33 stig í öllum leiknum). Blikar virtust ekki alveg í takti og bjuggust augljóslega ekki við þessum móttökum á Laugarvatni. Laugdælir komust í 10-4 áður en Blikar tóku við sér og leikhlutinn endaði 21-19, Laugdælum í vil.
Í öðrum leikhluta var sama upp á teningnum, Blikarnir fóru þó í gang undir lok leikhlutans og fóru liðin í búningsklefana í hálfleik í stöðunni 36-38, Blikum í vil.
Þriðji leikhlutinn var martröð fyrir Laugdæli. Á annarri sekúndu leikhlutans var boltanum stolið af Laugdælum. Þetta einkenndi leikhlutann; Laugdælir misstu einbeitinguna, tóku slæmar ákvarðanir og töpuðu boltanum. Þá gengu Blikar á lagið. Á tíu mínútum skoraði Breiðablik 38 stig (74% skotnýting í þessum leikhluta) á móti 15 stigum hjá Laugdælum.
Þó að leikurinn mátti kallast tapaður eftir fyrstu mínútur lokaleikhlutans (mest 32 stiga munur) hættu Laugdælir aldrei að spila og með sömu hörku og þeir sýndu í upphafi leiks náðu þeir að komast aftur inn í leikinn. Þeir höfðu þó grafið sér allt of djúpa holu í þriðja leikhlutanum og þrátt fyrir að þeir hafi skorað 31 stig (62% skotnýting) á móti 19 stigum hjá Blikum dugði það ekki til.
Blikar unnu Laugdæli í stærstu tölfræðiþáttum leiksins; skotum (35/70 á móti 29/62), vítaskotsnýtingu (67% á móti 59%) og fráköstum (41 á móti 27). Steinar Arason var stigahæstur hjá Blikum með 26 stig (4/7 í þriggja stiga skotum og 6/7 í vítaskotum) og Þorsteinn Gunnlaugsson var einnig mjög sterkur (15 stig, 12 fráköst, 2 stoðsendingar og 3 stuldir). Bjarni Bjarnason var fremstur hjá Laugdælum (33 stig og 8/9 í 2 stiga skotum) og Jón Hrafn Baldvinsson kom þar á eftir (24 stig, 6 fráköst og 2 stuldir) og því næst Sigurður Orri Hafþórsson með 13 stig.
Breiðablik féll niður úr úrvalsdeild í fyrra og Laugdælir komu upp úr 2. deild. Búist var við sigri hjá Blikum í þessum leik en gaman var að sjá hvað Laugdælir gátu staðið í þeim. Þessi leikur er lýsandi dæmi um hve jöfn 1. deildin er í ár og ljóst er að við blasir kröftugt og þrælskemmtilegt leiktímabil.
Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson
Ljósmynd/ Úr safni: Sævaldur þjálfari Blika messar yfir sínum mönnum.
Ljósmynd/ Úr safni: Sævaldur þjálfari Blika messar yfir sínum mönnum.